Almenn verkefni 2019

Heiti verkefnis : 

Notkun á yfirborðsbylgjum við mat á stífnieiginleikum jarðvegs og jarðvegsfyllinga

Verkefnastjóri : 

 

Stutt lýsing á verkefninu:

 

Upplýsingar um jarðtæknilega eiginleika jarðvegs og manngerðra jarðvegsfyllinga eru mikilvægar í jarðtæknilegri hönnun og jarðtæknilegri jarðskjálftaverkfræði. Jarðskjálftavá á Íslandi er sú mesta í Norður-Evrópu og leita þarf sunnar á álfuna til að finna svipaða eða meiri vá. Jarðfræði Íslands er sömuleiðis sérstök vegna samspils íss og elds. Víða eru þykk laus setlög sem mynduð eru vegna rofs og framburðar jökla, jökulhlaupa og jökuláa, sem og vegna eldvirkni með öskufalli, gjóskumyndun og hraunrennsli. Setlögin eru jarðfræðilega ung og mjög frábrugðin þeim sem finna má í okkar nágrannalöndum. Upplýsingar um eiginleika þeirra, svo sem, stífni, þjöppunarstig og viðnám gegn ysjun í jarðskjálftum verður því ekki sótt í erlenda gagnabanka eða rannsóknaniðurstöður heldur þarf að afla þeirra með staðbundnum mælingum og rannsóknum. Jarðefni sem notuð eru við mannvirkjagerð eru af sömu ástæðum sérstök og öðruvísi og þekking á  eiginleikum manngerðra fyllinga, jarðvegsgarða og burðarlagi vega verður því einnig að afla með innlendum rannsóknum. Á undanförnum árum hefur verið byggð upp þekking og færni við Háskóla Íslands við að beita  yfirborðsbylgjumælingum við að ákvarða stífnieiginleika jarðvegs. Aðferðin gengur undir nafninu MASW (Multichannel Analysis of Surface Waves) og hefur þegar verið beitt á 15 stöðum á landinu við náttúrulegar aðstæður en einnig hefur henni verið beitt á jarðstíflur með góðum árangri. Aðferðin er fljótvirk og ódýr samanborið við aðrar aðferðir. Ennfremur er verklagið umhverfisvænt þar sem ekki þarf að fara með þungar vinnuvélar eða hrófla við jarðveg þar sem mælt er. Verkefnið sem hér er sótt um styrk til gengur út að þróa aðferðina áfram, mæla á nýjum stöðum og að byggja upp gagnagrunn sem vistaður verður á opinni vefsíðu þar sem hönnuðir og aðrir geta sótt jarðtæknilegar upplýsingar sem og borið saman niðurstöður frá mismunandi mælistöðum.

Tilgangur og markmið:

 

Verkefnið sem hér er sótt um styrk til gengur út á:

  • Að halda áfram að þróa og beita MASW aðferðinni við að ákvarða stífni íslensk jarðvegs og manngerðra fyllinga og viðhalda fagþekkingu á sviðinu. Í þessu felst áframhaldandi þróun á hugbúnaði sem jafnharðan er gerður opinn og aðgengilegur á heimasíðunni:  www.masw.hi.is
  • Framkvæma MASW-mælingar á nýjum náttúrulegum stöðum en einnig á háum uppbyggðum vegstæðum og vegfyllingum sem valdar verða í samvinnu við starfsmenn Vegagerðarinnar.
  • Byggja upp gagnagrunn og opna vefsíðu þar sem allar niðurstöður MASW-mælinga verða gerðar aðgengilegar fyrir hönnuði og aðra.
  • Útvíkka aðferðafræðina með því að bæta við mælingum frá frístandandi hröðunarnema og samflétta upplýsingar frá honum við upplýsingar frá hefðbundnum MASW-mælingum. Þetta opnar möguleika að á mæla mun dýpra (>30m) en hægt hefur verið fram til þessa.