Almenn verkefni 2020

Heiti verkefnis : 

Mat á mengunarhættu vegna umferðar um vatnsverndarsvæði. Grundvöllur stefnumarkandi leiðbeininga um hönnun og rekstur vega innan sl. svæða

Verkefnastjóri : 

 

Stutt lýsing á verkefninu:

 

Ísland er auðugt af vatni og er talið að ástand vatns sé almennt gott. Þó benda rannsóknir til þess að hér á landi sé nokkurt staðbundið mengunarálag á vatn m.a. við stærstu malbikuðu vegi landsins auk þess sem að með auknum þéttleika byggðar aukist álag á grunnvatn vegna aukinnar umferðar yfir aðrennslis- eða safnsvæði vatnsbóla.

Vatnsveitur um allt land hafa um langt skeið haft áhyggjur af mengunarhættu þar sem vegir liggja um vatnsverndarsvæði. Þá hafa bæði Vegagerðin og Samorka verið með málefnið til umfjöllunar um nokkurt skeið. Í kjölfar fagþings Samorku vorið 2018, þar sem m.a. fulltrúi Vegagerðarinnar hélt erindi, varð að samkomulagi milli ofangreindra aðila að fara í frekari rannsóknir á málaflokknum og myndu EFLA og Samorka í því skyni sækja um styrk í rannsóknarsjóð Vegagerðarinnar til verkefnisins.

Í rannsóknarverkefni þessu er meginviðfangsefnið að leggja grunn að leiðbeiningum um hönnun og rekstur vega sem fara um vatnsverndarsvæði, til verndar vatnsbóla. Skoðaðir verða vegkaflar sem liggja í gegnum vatnsverndarsvæði og hætta á mengun vatnsbóla vegna mögulegra slysa og afrennslisvatns metin og þeim forgangsraðað m.t.t. mengunarhættu. Dregið verður fram með hvaða hætti draga má úr líkum á slysum með veghönnun og viðhaldi og þeim framkvæmdum sem mögulegar eru til að draga úr mengunarhættu vegna slysa og afrennslisvatns lýst.

Verkefnið er liður í að tryggja almannahagsmuni og að til verði reglur og viðmið sem Vegagerðin notar við hönnun og ákvarðanatöku, sem og í samskiptum við fjárveitingarvaldið, hönnuði og verktaka. Þá styður verkefnið við Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun númer 6 um hreint vatn og hreinlætisaðstöðu.

Tilgangur og markmið:

 

Meginviðfangsefnið er að leggja grunn að stefnumarkandi leiðbeiningum um hönnun og rekstur vega sem fara um vatnsverndarsvæði, til verndar vatnsbóla. Rannsóknarspurningar eru:

1.     Uppfylla vegir sem liggja innan íslenskra vatnsverndarsvæða ítrustu öryggiskröfur sem stuðla að verndun og heilnæmi neysluvatns?

2.     Hvernig má draga úr líkum á mengun vatnsbóla af völdum umferðarslysa og afrennslisvatns vegna bílaumferðar á vatnsverndarsvæðum?

Með auknum þéttleika byggðar, auknum fjölda ferðamanna og aukinni umferð yfir aðrennslis- eða safnasvæði vatnsbóla eykst álag á vatnsból. Mengunarslys af völdum bílaumferðar er ógn við öryggi drykkjarvatns og almannaheill. Þekkt er að afrennslisvatn frá vegum inniheldur m.a. þungmálma, PAH efni og örplast, sem uppsafnað getur ógnað öryggi neysluvatns.

Fyrir liggur kortlagning vatnsverndarsvæða hér á landi og vega sem liggja þar um ásamt umferðarmagni (ÁDU) á vegunum. Þessar upplýsingar ásamt mati á öryggi núverandi vega innan vatnsverndarsvæða verða m.a. nýttar í verkefninu til að forgangsraða vegum sem fara í gegnum vatnsverndarsvæði eftir mengunarhættu. Markmið þessa rannsóknarverkefnis verður því tvískipt:

1.     Flokka og forgangsraða vegum sem fara í gegnum vatnsverndarsvæði eftir mengunarhættu. Forgangsröðunin mun taka tillit til umferðaröryggis, afvötnunar, uppbyggingar og gerð hliðarsvæða vega. Einnig ÁDU og samsetningu umferðar (t.d. hlutfall þungaumferðar og hvort um veginn eru fluttir viðkvæmir farmar svo sem olía).

2.     Gerð leiðbeininga um aukið öryggi vega á vatnsverndarsvæðum.

a.     Lýsing framkvæmda á sviði veghönnunar sem auka öryggi á vegum innan vatnsverndarsvæða.

b.     Lýsing mögulegra aðgerða til að minnka líkur á mengun vatnsbóla, t.d. val á jarðvegi í vegfláa byggt á jarðfræðilegum aðstæðum í umhverfi vegar.

Verkefnið er liður í að tryggja almannahagsmuni og styður við það hlutverk Vegagerðarinnar að stuðla að öruggum og sjálfbærum samgöngum og þróun í samræmi við samfélags- og umhverfisleg markmið.