Almenn verkefni 2020

Heiti verkefnis : 

Samgöngumat - leiðbeiningar

Verkefnastjóri : 

 

Stutt lýsing á verkefninu:

 

Verkefnið snýst um að gera leiðbeiningar um gerð samgöngumats og ferðavenjuáætlunar við skipulagsgerð.

 

Samgöngur eru veigamikill þáttur í skipulagi og hafa áhrif á skipulagið og notendur þess um alla framtíð. Auk þess að hafa áhrif á umferðarmagn, umferðaröryggi og hljóðvist, hefur samgönguskipulag áhrif á lýðheilsu og lífsgæði og þar spila vistvænar og virkar samgöngur mikilvægt hlutverk. Vegna mikilvægis samgönguskipulags, sjálfbærra samgangna og áhrifa á samgöngukerfið og þéttbýlisumhverfi, þarf að efla vægi umfjöllunar um samgöngur í skipulagsgerð, sér í lagi vantar eftirfylgni með þessu í deiliskipulagsgerð.

 

Breska Department of Transportation gefur út leiðbeiningar um gerð samgöngumats (Transport Assessment) og ferðavenjuáætlunar (Travel Plan). Slíkt mat og áætlun eru leiðir til að meta og draga úr neikvæðum áhrifum af samgöngum og styðja við sjálfbærar samgöngur. BREEAM Communities frá BRE í Bretlandi er matskerfi til að meta sjálfbærni skipulags. Í kerfinu er kafli um samgöngumat, þar sem við undirbúning skipulagsvinnu, þ.e.a.s. á frumstigi verkefnis, er gerð krafa um samgöngulega greiningu til að samgöngur í skipulaginu byggi á sjálfbærum lausnum eins og kostur er. Í matskerfinu er vísað í ýmsar kröfur frá Bretlandi og einnig ýmis leiðbeinandi skjöl.

 

Verkefninu verður skipt í fjóra megin þætti:

1.      Aðferðafræði og rökstuðningur

2.      Nánari lýsing á breskum kröfum og leiðbeiningunum um samgöngumat og ferðavenjuáætlun.

3.      Mat á leiðum til innlimunar í íslenskt skipulagsferli.

4.      Leiðbeiningar um gerð samgöngumats við deiliskipulagsgerð

 

Verkefnið er framhald af verkefninu „Samgönguskipulag og sjálfbærni“ sem fékk styrk úr Rannsóknarsjóði Vegagerðarinnar 2018 og skýrsla var gefin út í apríl 2019.

Tilgangur og markmið:

 

Tilgangur verkefnisins er að gera leiðbeiningar um gerð samgöngumats við deiliskipulagsgerð. markmiðið er að við lok verkefnisins liggi fyrir annars vegar skýrsla sem útskýrir samgöngumat og ferðavenjuáætlun eins og þau er gerð í Bretlandi, mat á því hversu umfangsmikið samgöngumat myndi henta fyrir skipulagsgerð á Íslandi auk leiðbeininga um hvað samgöngumat og ferðavenjuáætlun ætti að innifela og útskýringar á helstu þáttum þess.