Almenn verkefni 2021

Heiti verkefnis : 

Brýr í hringrásarhagkerfi

Verkefnastjóri : 

 

Stutt lýsing á verkefninu:

 

Í þessu verkefni er fjallað um hvernig fella má brúarmannvirki að hugtakinu hringrásarhagkerfi, með það fyrir augum að draga úr umhverfisspori. Unnið verður með gögn úr vistferilsgreiningu og sjónum beint sérstaklega að því hvernig hafa má jákvæð áhrif á umhverfisspor lokastigum líftíma mannvirkjanna með endurnýtingu eða breytingum á byggingarhlutum. Niðurstöður mats á þessum þætti geta sagt fyrir um hvort rétt væri að auka áherslu á að innifela möguleika á endurnýtingu eða aðlögun inn í brúarhönnun. Unnin verða frumdrög að brú þar sem endurnýtingar- og breytingamöguleikar eru byggðir inn í byggingarhlutahönnun, og umhverfisspor slíkrar brúar borið saman við brú af algengri útfærslu.

Tilgangur og markmið:

 

Verkefninu er ætlað að svara því hvort rétt væri að auka áherslu á að innifela möguleika á endurnýtingu eða aðlögun að öðru hlutverki inn í hönnun byggingarhluta í brúarmannvirkjum. Leitað verður svara við þessu með því að bera kolefnisspor brúar þar sem hugað er að endurnýtingarmöguleikum byggingarhluta við lok líftíma, þannig að tryggt sé að endurnýting sé raunhæf í vistferilsgreiningu, saman við kolefnisspor hefðbundinnar brúar af svipaðri gerð. Ef niðurstöður endurspegla verulegan mun ætti almennt að leggja aukna áherslu á endurnýtingarmöguleika.

Verkefnið fellur að markmiðum Rannsóknarsjóðs Vegagerðarinnar með því að afla nýrrar þekkingar og beina sjónum að sjálfbærni og umhverfisáhrifum brúarmannvirkja, með það fyrir augum að auka áherslu á sjálfbærni í hönnun. Þannig styður verkefnið við hlutverk Vegagerðarinnar um sjálfbærar samgöngur og þróun þeirra í samræmi við markmið.

Auk þess tengist verkefnið beint inn á vinnu að Aðgerð C.3 Loftslagsáhrif byggingariðnaðarins úr Aðgerðaáætlun í loftslagsmálum, sem og við Heimsmarkmið SÞ um Sjálfbæra þróun, einkum undirmarkmið 9.4, 9.5, 12.2 og 12.5. Jafnframt er bent á að þó það beintengist ekki skilgreindri tölusettri aðgerð úr Aðgerðaáætlun miðar verkefnið að því að draga úr úrgangi, í samræmi við stefnurnar Saman gegn sóun og Meðhöndlun úrgangs til næstu 12 ára sem minnst er á í Aðgerðaáætluninni

Hringrásarhagkerfishugsunin hefur beina skírskotun til Heimsmarkmiða SÞ, en skv. úttekt Schroeder o.fl. geta hringrásarhagkerfi stutt með beinum hætti við 49 undirmarkmið af 169, og fyrir 85 undirmarkmið til viðbótar má nýta hringrásarnálgunina óbeint.

Verkefninu er einnig ætlað að nýtast sem hluti af framlagi Íslands í NVF samstarfið, en þar veitir Ísland brúarnefnd forstöðu árin 2020-2024. Vistferilsgreiningar eru þema til skoðunar í brúarnefndinni fyrir árið 2021 og lenging líftíma fyrir árið 2023.