Almenn verkefni 2021

Heiti verkefnis : 

Sprungumyndun í grjóti í brimvörn - Námurannsókn

Verkefnastjóri : 

 

Stutt lýsing á verkefninu:

 

Vandamál hefur verið í gegnum tíðina þar sem brimvarnargrjót á til að springa og klofna í smærri einingar en til var ætlast. Þetta hefur einkum verið tengt við nokkrar námur á landinu, þrátt fyrir að bergið í þessum námum hafi verið talið ákjósanlegt til grjótvinnslu. Vandamálið virðist einnig helst tengjast vinnslu um vetur, annað hvort í frosti eða að frost verði skömmu eftir að bergið er sprengt og unnið. Ástæðan fyrir þessu er annars ekki þekkt.

Þetta rannsóknarverkefni felur í sér að gera samanburð á bergi úr námum þar sem grjót hefur sprungið eftir að búið er að raða því í brimvarnargarða. Grjótsýni verða tekin úr þeim námum þar sem þetta hefur verið vandamál og þau greind út frá bergfræðilegri gerð og eiginleikum. Til samanburðar verður einnig tekið grjót úr sambærilegri basaltnámu þar sem vandamálið er ekki til staðar.  

Mikilvægt er að finna orsakir þessa vandamáls til þess að tryggja stöðugleika og öryggi slíkra sjóvarnargarða og koma í veg fyrir flóknar viðgerðir eftir að þeir hafa verið gerðir. Varðandi bæði kostnað og umhverfismál er einnig mikilvægt að reyna að lágmarka grjótflutninga eins og hægt er.

Tilgangur og markmið:

 

Athuga þarf hvort ástæðuna fyrir sprungumyndun í vinnslugrjóti megi rekja til bergfræðilegra þátta, bergtæknilegra þátta eða þátta tengda sjálfri efnisvinnslunni. Meginmarkmið þessa verkefnis er að gera bergfræðilegan samanburð á nokkrum námum þar sem vandamálið er þekkt og bera einnig saman við námu þar sem vandamálið er ekki til staðar. Ef í ljós kemur að vandamálið virðist tengjast bergfræðilegum þáttum mun það auðvelda val á bergnámum til vinnslu á brimvarnargrjóti.