Almenn verkefni 2021

Heiti verkefnis : 

Vegveðurspáyfirlit fyrir vetrarþjónustu Vegagerðarinnar

Verkefnastjóri : 

 

Stutt lýsing á verkefninu:

 

Margir veðurþættir hafa áhrif á færð og öryggi á vegum. Veðrátta telst sem einn alvarlegasti þáttur sem hefur áhrif á samgöngur, ekki síst á norðurslóðum. Annar jafn mikilvægur þáttur er mannlegi þátturinn, þ.e. mannleg mistök og vitund um aðstæður á vegum.  Þessir tveir þættir, veðurfar og mannleg mistök hafa í sameiningu stigvaxandi áhrif á öryggi, ekki bara á vegum en almennt séð í öllum samgöngum, lofti sem láð.


Fyrra verkefni umsóknaraðila snérist um að þróa dæmi um einfalda spáveðursýn fyrir vegfarendur, þ.e. “hvers konar hættu má búast við vegna veðurs í samhengi við leiðaráætlun vegfaranda?”. Enda er ekki auðvelt með almennum spákortum að átta sig á öllum þeim hættum sem geta haft áhrif á vegfarendur. Má þar nefna atriði eins og skafrenning, skyggni, úrkomu, snjó á vegum og ísingu.


Kynning á niðurstöðum fyrra verkefnis (Leiðarveðurspáþjónustur Veðurstofu Íslands, skýrsla í viðhengi) vakti áhuga hjá starfsmönnum Vegagerðarinnar og varð hvati fyrir frekari vinnu. Þar kom í ljós þörf við að aðstoða símaþjónustu Vegagerðarinnar um leiðarval vegfarenda og þörf á upplýsingaveitu fyrir vetrarþjónustu í einu heilstæðu spáyfirliti um væntanlega færð á vegum: Ofankomu, hálku og skafrenning á vegakerfum landsins.


Vegagerðir á Norðurlöndunum þurfa að annast umfangsmikið eftirlit með færð til að geta skipulagt með fyrirvara snjóruðning og söltun.  Verkefnistillaga þessi snýst um að aðlaga leiðarspáþjónustur úr fyrra verkefni fyrir Vegagerðina að öllum vegakerfum landsins.  Þjónustan og þróun á framsetningu mun auðvelda vinnu við að greina aðstæður á vegum með spágögnum, og þar með minnkað möguleika á því að missa af einstaka veðurþáttum sem geta haft áhrif á færð.

Tilgangur og markmið:

 

Að auðvelda spáyfirsýn yfir veðurspáþætti meðfram helstu vegakerfum landsins sem hafa áhrif á ákvarðanir í tengslum við vetrarþjónustu Vegagerðarinnar.  Þróað verður viðmót sem sýnir litakóðað: Grænt, gult og rautt, alvarlegustu svæðin meðfram vegum landsins þar sem þarf að huga að snjóruðningi og söltun í samræmi við bestu mögulegu spágögn Veðurstofu Íslands.  Í viðmótinu verður hægt að skoða ítarlega hvaða veðurspáþættir hafa áhrif á færð á einstaka vegköflum.  Tilgangurinn er að auðvelda til muna yfirsýn yfir hættur á vegum fram í tímann í samræmi við bestu mögulegu spágögn Veðurstofu Íslands.


Vegspáyfirlitið mun veita möguleika á stillanlegum þröskuldum fyrir ofankomu, hálku og skafrenning svo að litakóðun á vegköflum verði í samræmi við áherslur og reynslu í vetrarþjónustu við ruðning og söltun.  Einnig mun vegspáyfirlitið veita möguleika á að setja inn, velja og stilla vegkafla í spáviðmótið.


Skafrenningsspá Veðurstofu Íslands og Vegsýnar (Skúli Þórðarson) var þróuð í norrænu samstarfi í tengslum við SNAPS verkefnið (norðurslóðaverkefni Evrópusambandsins) og með styrk frá Vegagerðinni. Skafrenningslíkanið verður uppfært og þröskuldar aðlagaðir í samræmi við reynslu af notkun líkansins síðustu ár. Skafrenningslíkanið verður einnig aðlagað að almennum spágögnum svo að nýtist til frambúðar óháð veðurspálíkani. Þetta mun gera öðrum veðurstofum á Norðurlöndunum kleyft að tengja líkanið inn í sínar eigin spáafurðir og mun stuðla að áframhaldandi samstarfi í þróun, sannreynslu og stillingum á skafrenningsspám.