Almenn verkefni 2021

Heiti verkefnis : 

Efla vöxt deilibíla á Íslandi með fjárhagslegum stuðningi

Verkefnastjóri : 

 

Stutt lýsing á verkefninu:

 

Rannsóknin snýr að því að meta áhrif þess að innleiða deilibíla í nýjum hverfum/bæjum með fjárhagsaðstoð til deilibílaþjónustu. Þetta verður gert með því að standa að tilraunaverkefni þar sem deilibílar verða aðgengilegir íbúum í sex mánuði. Vonast er eftir að því að tilraunaverkefni loknu verði rekstrargrundvöllur tryggður fyrir áframhaldandi deilibílaþjónustu. Verði það að raunveruleika, flest megin ávinningur að því að ýta undir (eða flýta fyrir) innleiðingu deilibíla í fleiri sveitarfélögum á Íslandi.

Rannsókn sem EFLA framkvæmdi á síðasta ári sýndi að deilibílar hér á landi eru mikilvægur liður í að auðvelda íbúum að lifa án einkabílsins, og að einn deilibíll komi í stað 4-6 einkabíla[1]. Þrátt fyrir ótvíræðan ávinning deilibíla hér og annars staðar, þá hefur þróunin verið hæg og eru aðeins deilibílar aðgengilegir miðsvæðis í Reykjavík og á einum stað í Kópavogi. Engin fyrirstaða er fyrir því að deilibílaþjónusta geti ekki verið innleidd í fleiri hverfum og sveitarfélögum á Íslandi.

Rannsókn þessi miðar að því framkvæma tilraunaverkefni um rekstur deilibíla í sex mánuði í þremur sveitarfélögum en það er sá tími sem yfirleitt tekur fyrir deilibíl að verða sjálfbæran í rekstri[2]. Tilgangur og markmið verkefnis er að færa mat á það hvort að slíkur fjárhagslegur styrkur sé skilvirk leið til að stuðla að hraðari vexti deilibíla á Íslandi. Er það gert með því að færa mat á árangurinn í lok tilraunaverkefnis, annars vegar með ferðavenjukönnun til meðlima deilibílaþjónustu í viðkomandi sveitarfélögum, og hins vegar með því að greina notkun deilibíla yfir tímabilið. Með því að standa að tilraunaverkefni í þremur sveitarfélögum þá er hægt er að meta betur árangurs verkefnis út frá hinu byggða umhverfi s.s. þéttleika íbúa, bílaeign, aðgengi að þjónustu og þjónustustig almenningssamgangna.

Rannsókn þessi unnin í samstarfi við Zipcar deilibílaleigu ásamt sveitarfélögunum Garðabæ, Hafnarfirði og Akureyri.

Tilgangur og markmið:

 

Upphafskostnaður til að byrja að reka nýjan deilibíl á nýjum stað getur verið umtalsverður, en útvega þarf ökutæki með viðeigandi tæknilausn, útvega sérmerkt bílastæði ásamt markaðssetningu. Það getur tekið allt að 6 mánuði til þess að deilibíll getur orðið sjálfbær í rekstri á nýjum stað[3]. Sökum þess hversu stutt á veg innleiðing deilibíla er kominn hér á landi (þjónusta fyrst aðgengileg síðan 2017) þá þarf það ekki að koma á óvart að vöxturinn sé hægur enda fjárhagsleg áhætta fólgin í innleiðingu á nýjum deilibílum og bílaeign á Íslandi almennt mikil.

Tilgangur og markmið þessa verkefnis er að færa mat á það hvort fjárhagslegur stuðningur til deilibílaþjónustu til að standa að innleiðingu á nýjum deilibíl sé skilvirk og hagkvæm leið til þess að stuðla að hraðari vexti deilibíla á Íslandi. Með fjárhagslegum stuðningi í upphafi innleiðingar þá er dregið úr áhættu fyrir deilibílaþjónustu til að geta vaxið með örari hætti en þekkist á Íslandi í dag. Hraðari innleiðing deilibíla er mikilvæg fyrir sveitarfélög til þess að geta stuðlað að breyttum ferðavenjum ásamt öðrum jákvæðum umhverfisáhrifum sem það hefur í för með sér.

Með ofangreint í huga má segja að rannsóknarspurningar verkefnsins sé: Er fjárhagslegur stuðningur til þess að innleiða deilibílaþjónustu á nýju svæði skilvirk og hagkvæm leið til þess að efla vöxt deilibíla hér á landi? Rannsóknarspurningunni verður svarað með að standa að tilraunaverkefni í þremur sveitarfélögum þar sem staðið verður að innleiðingu deilibíls til 6 mánaða og árangur metinn með þeim hætti sem tilgreindur er í framkvæmdahluta verkefnisins.