Almenn verkefni 2021

Heiti verkefnis : 

Landmótun fornra ísstrauma á Norðausturlandi

Verkefnastjóri : 

 

Stutt lýsing á verkefninu:

 

Ísstraumar eru hraðskreiðir hlutar stórra meginjökla sem flytja megnið af ís og seti sem jöklarnir skila frá sér. Ísstraumar eru vel þekktir frá Grænlandi og Suðurskautslandinu, og í N-Ameríku, Bretlandseyjum og norðurhluta Evrópu ber skipan setlaga og landforma (landmótun) fornum ísstraumum glögg vitni. Ísstraumar voru einnig útbreiddir í íslenska meginjöklinum undir lok síðasta jökulskeiðs. Þekking okkar á þeim, landmótun þeirra og viðbrögðum við hlýnun loftslags og hækkandi sjávarstöðu á síðjökultíma er þó mjög takmörkuð. Markmið þessa verkefnis eru að auka skilning okkar á landmótun, umfangi og virkni fornra ísstrauma á Norðausturlandi. Undanfarin ár hafa jökulræn setlög og landform á þessu svæði verið kortlögð allt frá Þistilfirði suður á Jökuldalsheiði. Þannig hafa fengist mikilvægar upplýsingar um jarðgrunn og dreifingu setlaga og landforma. Markmið verkefnisins nú eru að ljúka kortlagningu svæða sem út af standa og afla frekari upplýsinga um setgerðir ákveðinna landforma. Verkefnið varpar því ljósi á staðsetningu fornra ísstrauma og afstæðan aldur þeirra, og þau ferli sem stýrt hafa landmótun og stuðlað að auknum skriðhraða. Með tengingum landmótunar við aldursgreiningar mun verkefnið síðar geta varpað ljósi á viðbrögð ísstrauma sem gengu út á landgrunnið við hækkun sjávarstöðu, og aukið þar með þekkingu okkar á þróun ísaldarjökla á tímum hlýnandi loftslags. Niðurstöður verkefnisins munu nýtast við að skorða líkön fyrir myndun landforma undir hraðskreiðum jöklum og þróun íslenska ísaldarjökulsins á síðjökultíma. Þá mun nákvæm kortlagning auka þekkingu okkar á jarðfræði og jarðgrunni svæðisins og skýra útbreiðslu setlaga og landforma sem mörg hver geta haft hagnýtt gildi fyrir ýmis konar framkvæmdir og mannvirkjagerð.

Tilgangur og markmið:

 

Tilgangur þessa verkefnis er að auka skilning okkar á umfangi, landmótun og virkni fornra ísstrauma á Norðausturlandi, og sögu afjöklunar undir lok síðasta jökulskeiðs. Þetta er gert með því að kortleggja og rannsaka jökulræn setlög og landform upp af Vopnafirði, Bakkaflóa, Þistilfirði og á Jökuldalsheiði með margvíslegum jarð- og jarðeðlisfræðilegum aðferðum. Unnið er út frá tveimur meginrannsóknarspurningum og verkefninu skipt í tilheyrandi verkþætti: 1) Hvað einkennir landmótun svæðisins og dreifingu setlaga og landforma, og hvernig tengist hún legu, virkni og hörfun fornra ísstrauma? Þessum spurningum er svarað með því að kortleggja ítarlega setlög og landform til að skýra landmótun svæðisins, legu fornra ísstrauma og afstæðan aldur þeirra. 2) Hvað einkennir setgerð og byggingu þeirra landforma sem ísstraumar hafa myndað? Hér verður setfræðilegum og jarðeðlisfræðilegum aðferðum beitt til að varpa ljósi á setgerð og byggingu landforma og þau ferli sem stuðla að auknum skriðhraða og mótun lands undir hraðskreiðum jöklum. Verkefnið skilar mikilvægum upplýsingum um landmótun og jarðgrunn svæðisins, dreifingu setlaga og landforma sem mörg hver hafa hagnýtt gildi fyrir ýmis konar framkvæmdir og mannvirkjagerð. Jökulhörfun á þessum hluta landsins er fremur illa þekkt og því er spurningin um hvenær ísstraumar hörfuðu af svæðinu einnig áleitin. Það viðfangsefni tengist þessu verkefni ekki beint, heldur verður fjár aflað eftir öðrum leiðum til að aldursgreina setlög og landform, jökulsorfnar klappir og stöðuvatnaset til að varpa ljósi á tímasetningu jökulhörfunar inn til landsins. Með samtvinnun alls þessa getur verkefnið einnig varpað ljósi á óstöðugleika ísaldarjökla og viðbrögð ísstrauma sem gengu út á landgrunnið við hækkun sjávarstöðu, og aukið þar með þekkingu  á þróun stórra meginjökla á tímum hlýnandi loftslags.