Almenn verkefni 2021

Heiti verkefnis : 

Kortlagning hávaða með CNOSSOS-EU. Framhaldsverkefni.

Verkefnastjóri : 

 

Stutt lýsing á verkefninu:

 

Árið 2021 er stefnt að innleiðingu evrópska hávaðareiknilíkansins CNOSSOS-EU hérlendis og mun það líkan verða notað við alla opinbera hávaðakortagerð í stað norræna reiknilíkansins frá 1996 (RTN:1996). Rannsóknir á hinum Norðurlöndunum benda til þess að þörf sé á aðlögun reiknilíkansins að norrænum aðstæðum.

VSÓ Ráðgjöf í samstarfi við Trivium ráðgjöf unnu rannsóknarverkefni árið 2018 fyrir Vegagerðina og Reykjavíkurborg. Markmið verkefnisins var að bera saman fyrrgreind tvö reiknilíkön til að meta hvort þörf sé á því að aðlaga nýja líkanið að íslenskum aðstæðum og var niðurstaðan sú að þörf sé á frekari mælingum og rannsóknum.

Mikilvægt er að stilla af inntaksstærðir CNOSSOS-EU reiknilíkansins fyrir aðstæður hérlendis. Reynsla nágrannalandanna nýtist íslenskum hagsmunaaðilum í þessum efnum og mikill ávinningur felst í því að eyða óvissu í notkun CNOSSOS-EU reiknilíkansins.

Mikilvægt skref í þeirri vinnu sem er undanfari innleiðingu CNOSSOS-EU hérlendis, er að afla upplýsinga frá Norðurlöndum þar sem vel hefur gengið að stilla af inntaksstærðir fyrir líkanið. Þær upplýsingar þarf að setja inn í hljóðvistarlíkan fyrir íslenskar aðstæður og bera saman niðurstöður með CNOSSOS-EU við niðurstöður með RTN:1996. Sú vinna nýtist beint til að stilla frekar af inntaksstærðir fyrir íslenskar aðstæður og undirbýr jarðveginn fyrir innleiðingu CNOSSOS-EU.

Notast verður við hljóðvistarlíkan sem VSÓ Ráðgjöf hefur útbúið af Seltjarnarnesi sem inniheldur allar stærri götur á Seltjarnarnesi og er því mikill kostur að geta byggt ofan á það.

Verkefni þetta verður unnið í samstarfi VSÓ Ráðgjafar og Trivium Ráðgjafar í samráði við Vegagerðina.

Tilgangur og markmið:

 

Markmið verkefnisins er að minnka mun á hljóðstigi reiknuðu með CNOSSOS-EU og RTN:1996 miðað við íslenskar aðstæður en samkvæmt fyrri rannsóknum hérlendis er munurinn talsverður. Tilgangur verkefnisins er því að afla upplýsinga um stuðla og stærðir sem nýst hafa á Norðurlöndum í sambærilegum rannsóknum og nýta þá hérlendis við hávaðakortagerð og meta hver munur er á hermun með annars vegar CNOSSOS-EU og hins vegar með RTN:1996. Mikilvægt er að finna þann mun og þessi vinna nýtist til að minnka hann og eyða óvissu í notkun CNOSSOS-EU fyrir íslenskar aðstæður.