Almenn verkefni 2022

Heiti verkefnis : 

Endurskoðun EC7, jarðtæknihönnun

Verkefnastjóri : 

 

Stutt lýsing á verkefninu:

 

Endurskoðun á jarðtæknistaðlinum, Eurocode 7 ásamt íslenskum þjóðarviðaukum stendur nú yfir en verkefni þetta hefur verið í gangi frá árinu 2010. Eurocode 7 hefur verið tekinn upp hérlendis sem og á hinum Norðurlöndunum og gildir um alla jarðtæknilega hönnun og rannsóknir. Norrænu jarðtæknifélögin hafa stofnað „spegilnefnd“ um verkefnið og taka virkan þátt í endurskoðuninni sem einn hópur. Þannig reynir spegilnefndin að samræma skoðanir og vilja allra aðildarlandanna varðandi væntanlegar breytingar. Íslendingar eiga 4 fulltrúa í spegilnefndinni þá Davíð Rósenkrans Hauksson, Sigurð Erlingsson, Þorgeir S. Helgason og Þorri Björn Gunnarsson.

Talið er mjög mikilvægt að hagsmuna Íslands sé gætt í verkefninu, og þar sem jarðtækni er stór þáttur í starfi Vegagerðarinnar er nauðsynlegt að sjónarmið hennar komi fram og að niðurstöður séu kynntar starfsmönnum, ráðgjöfum og verktökum Vegagerðarinnar.

Endurskoðun EC7 er langtímaverkefni en innan örfárra ára mun ný útgáfa líta dagsins ljós, en hún er nú í rýni og verið að leggja lokahönd á verkið og farið að undirbúa  uppfærslu þjóðarviðauka. En rit eins og EC7 verður í stöðugri mótun, rýni og þróun.

Þegar ný útgáfa liggur fyrir er stefnt að almennri kynningu á staðlinum á meðal jarðtæknifólks og hagsmunaaðila en þegar er farið að kynna drög að staðlinum.

Tilgangur og markmið:

 

Tilgangur verkefnisins er að hafa rödd þegar drög að uppfærðum þolhönnunarstaðli á sviði jarðtæknihönnunar - Eurocode 7 (EC7) - eru mótuð og gæta hagsmuna Íslands og þar á meðal Vegagerðarinnar; einnig að notendur EC7 og aðrir hagsmunaaðilar verði upplýstir um breytingarnar sem verða með nýrri útgáfu enda verða þær umtalsverðar m.a. í ljósi tæknibreytinga en einnig viðhorfsbreytinga og áhrifa loftslagsbreytinga.

Tilgangi eða markmiði verkefnisins er náð með samstarfi á Íslandi í gegnum Jarðtæknifélag Íslands og ekki síður með á vettvangi Norðurlanda en þar var mynduð svokölluð spegilnefnd á vegum norrænu jarðtæknifélaganna árið 2014, á ensku Nordic Mirror Group Eurocode 7, NMGEC7. Spegilnefndinni er stjórnað af dr. Gunillu Franzén en hún hefur verið varaformaður undirnefndar 7 (SC7) hjá Tækninefnd 250 (TC 250) hjá Staðlasamtökum Evrópu (CEN) frá 2019, en CEN/TC 250/SC7 sér um uppfærslu og breytingar á EC7 skv. umboði frá Evrópusambandinu (EU/ESB) og í samstarfi við Fríverslunarsamtök Evrópu (EFTA).