Almenn verkefni 2022

Heiti verkefnis : 

Þungamælingar bifreiða á ferð

Verkefnastjóri : 

 

Stutt lýsing á verkefninu:

 

Verkefnið gengur út á að skoða búnað til þyngdarmælinga ökutækja á ferð og kortleggja þá möguleika sem hann hefur uppá að bjóða fyrir Vegagerðina, lögreglu og aðra sambærilega aðila.  Einnig þarf að skoða hvaða breytingar þarf að ráðast í  varðandi löggjöfina til að sekta megi beint ökutæki eftir upplýsingum frá slíkum búnaði, sambærilegt og gert er með hraða og meðalhraðamyndavélar í dag.

Tilgangur og markmið:

 

Tilgangur verkefnisins er að finna hvort til sé í dag búnaður sem mælir þyngd bifreiða á ferð, annað hvort á akrein eða á minni hraða á hliðarspori, einnig  hvort það sé þá hægt að sekta of þung ökutæki beint úr kerfinu með númeraskynjun (myndavélagreining á númer bifreiða)?

Með tilkomu slíks búnaðar verður hægt að fylgjast með þungaumferð allan sólarhringinn alla daga ársins og sekta þau ökutæki sem mælast yfir löglegum öxulþunga. Kerfið myndi auk þess gefa raunhæfa mynd af því hvort sjá megi breytingar í mælingunum, t.d. milli tíma dags, milli daga, milli árstíða og á milli ára. Slíkar upplýsingar gætu nýst við áætlunargerðir og annað því tengt hjá Vegagerðinni eða sambærilegum aðilum.

Ef ekki reynist mögulegt að sekta beint úr kerfinu mætti nýta það til að forskoða alla bíla sem aka eftir þjóðvegi áður en komið er að mannaðri vigtunarstöð. Með þessu móti væri mögulegt að stöðva aðeins þá bíla sem við forskoðun kerfisins mældust of þungir og vísa þeim í útskot til hefðbundinna mælinga. Þetta leiðir af sér minni töf á umferðinni og skilvirkari mælingar.

Markmiðið er svo alltaf á endanum að akstur of þungra ökutækja dragist saman og helst hverfi, sem sparað getur stórar upphæðir í rekstri vegakerfisins til lengri tíma litið.