Almenn verkefni 2022

Heiti verkefnis : 

Rannsóknir á tengslum veðurfarsbreytinga og hreyfinga á og við vegstæði Siglufjarðarvegar um Almenninga, á norðanverðu landinu

Verkefnastjóri : 

 

Stutt lýsing á verkefninu:

 

Allt frá því að Siglufjarðarvegur um Almenninga var lagður árið 1968 hafa skapast töluverð vandræði vegna sigs á og í kringum vegstæði hans, á um 5-6 km löngum kafla frá Hraunum og norður að Almenningsnöf. Umfangsmikil kortlagning og rannsóknir hafa verið gerðar á svæðinu á undanförnum árum og áratugum til að finna orsakir þess sigsins. Þrjú stór og nokkur minni berghlaup hafa verið kortlögð á svæðinu. Nyrst er Tjarnardalaberghlaupið, svo Þúfnavallaberghlaupið og Hraunaberghlaupið syðst. Sameiginlegt með öllum þessum berghlaupum er að töluverð hreyfing er á efnismössum þeirra í dag, bæði þar sem vegstæðið liggur og eins utan þess. Mestar eru hreyfingarnar í Hrauna- og Tjarnardalaberghlaupunum þar sem hreyfingar nálgast um 1 m á ári við vegstæðið. Vísbendingar eru um að samband sé á milli veðurfars, þ.e.a.s. úrkomu og leysinga, og sighreyfinga í berghlaupunum. Þegar jarðlög blotna þá minnkar stöðugleiki þeirra og auknar sighreyfingar geta átt sér stað. Verkefni þetta gengur út á það að bera saman þekkta sögu hreyfinga á og við vegstæðið við veðurfar í aðdraganda þeirra. Eins verður rýnt í veðurfarsgögn allt frá því að vegurinn var lagður um Almenninga árið 1968 til dagsins í dag til að greina tíðni úrkomuatburða og leysingatímabila og bera saman við sögu hreyfinga. Með þeim samanburði verður hægt að sjá fjölda slíkra atburða og greina þá sem valdið hafa sighreyfingum. Vísbendingar eru einnig um að undangröftur sjávar við frambrún berghlaupanna geti orsakað sighreyfingar og verða aðgengileg gögn um ölduhreyfingar og tíðni storma einnig skoðuð.

Tilgangur og markmið:

 

Tilgangur verkefnisins er að taka saman sögu hreyfinga á og við vegstæði Siglufjarðarvegar um Almenninga á um 5-6 km löngum kafla frá Hraunum í Fljótum og norður að Almenningsnöf, allt frá því að vegurinn var lagður árið 1968. Skipulögð skráning á hreyfingum hefur ekki verið gerð og verður því rýnt í samtímaheimildir og eins skriðugagnagrunn Náttúrufræðistofnunar Íslands og Veðurstofu Íslands og einnig verður leitast við að fá upplýsingar frá staðkunnum einstaklingum. Saga hreyfinga verður síðan borin saman við verðurfarsgögn í aðdraganda hreyfinganna, til að greina orsakasamhengi veðurfarsþátta og hreyfinganna. Vísbendingar eru um að úrkomuatburðir og leysingar geti verið einn af megin orsökum þeirra hreyfinga sem verða á og við vegstæðið. Í því samhengi verða verðurfarsgögn greind frá 1968 til dagsins í dag og tíðni úrkomuatburða og leysinga skoðuð og borun saman við þekkta sögu hreyfinga. Vísbendingar eru einnig um að undangröftur sjávar við frambrún berghlaupanna geti orsakað sighreyfingar og verða aðgengileg gögn um ölduhreyfingar og tíðni storma einnig skoðuð.   

 

Þær rannsóknaspurningar sem setta eru fram eru:

1. Hver er saga hreyfinga á Siglufjarðarvegi um Almenninga frá 1968 til 2022?

2. Við hvaða veðurfarsaðstæður eiga hreyfingarnar sér stað.

3. Hver er tíðni svipaðra veðurfarsaðstæðna sem hafa orsakaða sighreyfingar á svæðinu borið saman við tíðni hreyfinga?

4. Hefur undangröftur sjávar á frambrún berghlaupanna áhrif á sighreyfingar?