Almenn verkefni 2022

Heiti verkefnis : 

Ástandsmat íslenskra jarðganga með gögnum veggreinis

Verkefnastjóri : 

 

Stutt lýsing á verkefninu:

 

Árið 2018 fjárfesti Vegagerðin í nýju mælingatæki sem kallaður er veggreinir ásamt hugbúnaðinum Road Doctor, sem notaður er til að vinna úr mælingunum. Veggreinirinn auðveldar mælingar og mat á ástandi vega og jarðganga og veitir töluleg gögn, en möguleikarnir til úrvinnslu eru margir. Grunnbúnaður veggreinis er:

·         Novatel GPS loftnet með IMU leiðréttingarbúnaði.

·         Tveir leysi (laser) mælar – annar niðurvísandi þannig að hægt sé að fá nákvæma mælingu á vegyfirborði (t.d. hjólfaramælingar) og hinn uppvísandi þannig að hægt sé t.d. að mæla þversnið jarðgangna. Hægt er að vinna saman þessar mælingar við GPS staðsetningu og fá þá nákvæmt punktský, eða landlíkan af veginum og á svæðinu í kringum veginn.

·         Þrjár myndbandsupptökuvélar eru á toppboga auk hitamyndavélar og fyrir miðju mastri er 360° myndavél. Þessar myndavélar gefa mikla möguleika við myndvinnslu, til dæmis til glöggvunar á aðstæðum og við öryggisúttektir. Hitamyndvélin gerir einnig mögulegt að greina það sem ekki er sjáanlegt með berum augum af myndum.

·         Þrjár jarðsjár eru á veggreininum, tvær 2Ghz til að nákvæmnisgreina efstu lög í veghloti og svo ein 400 Mhz fyrir dýpri mælingar í vegi, allt niður á 5 metra. Með jarðsjánum er m.a. hægt skoða mismunandi jarðlög í uppbyggingu og meta breytilegan raka í yfirborðslögum.

Þegar meta á ástand jarðganga og fylgjast með ástandi þeirra yfir tíma, þarf að nýta þekkingu jarðgangamanna ásamt gögnum sem safna má með hitamyndavél, öðrum myndavélum, jarðsjá og leysimælunum. En með þessum gögnum ætti að vera hægt að sjá leka og sprungur, auk annarra atriði sem vert er að skoða í jarðgöngum, t.d. rakamyndun í yfirborði akbrautar. Í þessu fyrsta verkefni verða ein göng, Héðinsfjarðargöng, tekin fyrir þannig að hægt sé að þróa og móta hvernig best er að vinna úr gögnum og koma þeim á aðgengilegt form sem nýtist í úttekt á göngunum. 

Tilgangur og markmið:

 

Tilgangur þessa verkefnis er að fylgjast betur með ástandi jarðganga á Íslandi. Samkvæmt lögum og reglugerðum skal reglulega gera úttekt á jarðgöngum og þess vegna mikill fengur ef hægt er að gera úttektina auðveldari, markvissari og byggja á gögnum en ekki eingöngu sjónmati. Veggreinirinn er gæddur búnaði sem hefur mikla möguleika til þess að nýtast vel þegar ástandsmeta á jarðgöng.