Almenn verkefni 2022

Heiti verkefnis : 

Slitlög - Klæðing

Verkefnastjóri : 

 

Stutt lýsing á verkefninu:

 

Almennt

Verkefnið var hluti af stóra slitlagaverkefninu sem búið er að skipta upp. Þessi hluti heldur utan um verkefni er tengjast klæðingum. Umfang þessa hluta hefur verið einfaldað töluvert og mun verkefnið vera fjórskipt hvert með sinn verkefnastjóra. Stefnt er að því að brjóta verkefnaliði niður í hæfilega stór verkefni eftir vinnuálagi hverju sinni og hafa umfangið í heildarverkefninu ekki meira en ráðið verður við á hverju rannsóknaári. Verkefnastjórar hvers verkefnis fá sér til liðs aðra þáttakendur sem ekki eru listaðir upp. Hér á eftir eru samanteknir úrdrættir úr öllum verkefnum en ítarlega verkefnislýsingu er að finna í fylgiskjölum með þessari umsókn sem einfaldar yfirsýn fyrir hvert verkefni fyrir sig.

A-     Vetrarblæðingar – gagnaöflun

Verkefnastjóri: Jón Helgi Helgason

Vetrarblæðingar hafa átt sér stað í þjálbiksklæðingum af og til undanfarin ár með tilheyrandi
kostnaði vegna óþrifa og skemmda á ökutækjum. Markmið verkþáttarins er að reyna komast að orsökum vetrarblæðinga og hvernig megi lágmarka þær, þ.e. að greina orsök þeirra og hvaða veðurfarslegu aðstæður þurfa að vera fyrir hendi til að hætta sé á vetrarblæðingum.

B-     Úttektir á klæðingum skv. Evrópustöðlum

Verkefnastjóri: Kristinn Lind Guðmundsson

Í þessu verkefni er rýnt í úttektareyðublöð sem eru í Evrópustöðlum fyrir klæðingar. Útbúa þýdd og heimfærð eyðublöð sem innihalda að lágmarki kröfur staðla og hugsanlega viðbætur ef þurfa þykir. Útbúa verklags lýsingu ásamt eyðublöðum sem færu inn í gæðahandbók síðar meir. Þetta verklag og úttektir eru síðan grundvöllur fyrir lækkun og afléttingu verkábyrgða í viðhaldsverkefnum.

C-      Hönnun á klæðingum

Verkefnastjóri: Magni Grétarsson

Notast verður við Handbók um klæðingar þar sem lýst er hvernig hanna skuli klæðingar út frá aðstæðum á verkstað og efnum sem nota skal í klæðinguna. Handbókin var gefin út 2017 og þrátt fyrir nokkrar tilraunir hefur ekki tekist að innleiða þá tækni sem sett er fram í handbókinni. Hvort orsökin sé að handbókin sé ekki nægilega skýr, tæknin of flókin eða tímafrek og eða fyrirskrifuð gildi í handbókinni standist ekki er leitast við því í þessu verkefni að komast að hvað veldur því að handbókin sé ekki notuð í meira mæli.

D-     Samanburður á hrærivélum við framkvæmd raunblönduprófs á viðloðun.

Verkefnastjóri: Pétur Pétursson

Verkþátturinn hefur tvenns konar tilgang. Annars vegar að kanna hvort mismunandi gerðir hrærivéla sem til eru á rannsóknarstofum, t.d. malbikshrærivélar, auk þeirra sem notaðar hafa verið í raunblöndupróf á Vegagerðinni og Tæknisetri gefi sambærilegar niðurstöður úr prófinu. Hins vegar (ef fyrra markmiðið er jákvætt fyrir mismunandi hrærivélar) að leggja til í nefnd CEN/TC227/WG2 (e. Surface dressing and slurry surfacing) að prófunaraðferðin verði tekin á dagskrá sem PWI (e. Proposed Work Item).

Tilgangur og markmið:

 

A-     Vetrarblæðingar – gagnaöflun

Verkefninu er ætlað að komast að orsökum vetrarblæðinga og greina áhrifaþætti sem þeim valda. Markmiðið er að geta spáð fyrir um vetrarblæðingar og að þróa fyrirbyggjandi aðgerðir.

B-     Úttektir á klæðingum skv. Evrópustöðlum

Að koma á stöðluðu verklagi við úttektir á klæðingum í samræmi við Evrópustaðla.

C-      Hönnun á klæðingum

Markmiðið er að koma á föstu verklagi við hönnun klæðinga og nýta þá tækni sem lýst er í handbókinni. Ef það er ekki hægt að nota handbókina í þeirri útgáfu sem hún er í dag verður gerð tillaga að breytingum á handbókinni svo hún muni nýtast sem best.

D-     Samanburður á hrærivélum við framkvæmd raunblönduprófs á viðloðun.

Að bera saman niðurstöður miðað við hrærivélar og ef jákvæð niðurstaða fæst að leggja þessa prófunaraðferð fyrir Evrópustaðlanefnd CEN/TC227/WG2 til samþykktar.