Almenn verkefni 2022

Heiti verkefnis : 

Mat á virði þess að dregið sé úr líkum á slysum í umferð

Verkefnastjóri : 

 

Stutt lýsing á verkefninu:

 

Nýlega skilaði starfshópur um Sundabraut ráðherra niðurstöðum úr kostnaðar- og ábatamati sem sýnir mikinn samfélagslegan ábata. Í skilagrein starfshópsins er tekið undir ábendingar Hagfræðistofnunar um að það vanti betri forsendur fyrir nokkra grunnþætti sem liggja til grundvallar mati á ábata notenda, eins og tímavirði íbúa á svæðinu, forsendur fyrir ferðamátavali í samgöngulíkani, tölfræðilegt mat á verðmæti mannslífa í tengslum við mat á ábata vegna umferðarslysa, svo og mat á verðmæti umhverfis. Svokallað virði tölfræðilegs lífs er peningalegur mælikvarði á greiðsluvilja fyrir því að dregið séu úr áhættu eða líkum á slysum, en ekki á virði mannlífs eða virði þess að koma í veg fyrir dauðsföll. Hingað til hefur verið notast við erlend gildi fyrir virði tölfræðilegs lífs við kostnaðar- og ábatamat á íslenskum samgönguinnviðum en rök hníga að því að nauðsynlegt sé að fara í sértækt mat hér á landi.

Verkefnið er fyrsta skrefið í því að hægt verði að meta virði þess að dregið sé úr líkum á slysum í umferðinni fyrir íslenskar aðstæður, með hagrænum matsaðferðum byggðum á greiðsluvilja.

Tilgangur og markmið:

 

Markmiðið með verkefninu er að leggja í undirbúningsvinnu til þess að hægt sé að meta það sem kallað er virði tölfræðilegs lífs fyrir íslenskar aðstæður með hagrænum verðmætamatsaðferðum. Skoða á fremstu erlendu vísindarannsóknir þar sem notendur samgöngumannvirkja eru fengnir til að afhjúpa eða lýsa yfir greiðsluvilja sínum fyrir að dregið sé úr líkum á slysum í umferð. Skoðað verður hvaða þættir hafa áhrif á greiðsluvilja mismunandi notenda- og samfélagshópa og hvernig og hvort ástand núverandi innviði hefur áhrif. Verða rannsóknirnar rýndar með það að leiðarljósi að hægt verði að hanna matsaðstæður sem stuðla að því að íslenskir notendur samgöngumannvirkja láti í ljós hvað þeir vilja í reynd borga fyrir að líkur á slysum minnki.

Verkefnið er liður í stærra rannsóknarverkefni sem snýr að því að gera grunnrannsóknir á þáttum sem hafa áhrif á ábata notenda í kostnaðar- og ábatamati af samgönguverkefnum