Almenn verkefni 2022

Heiti verkefnis : 

Greining á áhrifum gjaldtöku á breyttar ferðavenjur í Samgöngulíkani Höfuðborgarsvæðisins

Verkefnastjóri : 

 

Stutt lýsing á verkefninu:

 

Vegagerðin og SSH hafa látið þróa nýtt samgöngulíkan (Samgöngulíkan Höfuðborgarsvæðisins, hér eftir SLH) sem kalla mætti fjölferðamáta (e. multimodal).

Hér er á ferðinni verkefni sem er unnið með það fyrir augum að nota líkanið til að sýna eigendum hvaða aðgerðir og ákvarðanir geta skilað þeim árangri að markmið um breyttar ferðavenjur náist.

Lagt er upp með að framtíðarsviðsmynd í samræmi við skipulagsáform svæðisskipulags (samgöngumiðuð þéttingarsvæði og samgönguframkvæmdir) verði framkvæmd sem grunnspá og gerðar fráviksspár sem skoða áhrif mismunandi gjaldtöku og/eða breytinga á samgönguframkvæmdum.

Horft verður fyrst fremst til bílastæðakostnaðar og/eða þrengslagjalda frekar en tafakostnaðar (e. Manage by cost rather than manage by delay).

Tilgangur og markmið:

 

Tilgangurinn er að nota líkanið til að svara á spurningum eins og þeirri hvort hækkun á bílastæðagjöldum eða útvíkkun á gjaldskyldum svæðum hafi veruleg áhrif á ferðamátaval og hversu umfangsmiklar þurfa slíkar gjaldtökur að vera til að mæta markmiðum um breyttar ferðavenjur. Jafnframt að athuga hvort slíkar gjaldtökur séu nægjanlegar eða hvort endurskoða þurfi þær framkvæmdir sem eru á áætlun samkvæmt svæðisskipulagi. Líkanið verði þannig notað til að leggja mat á samspil hvata og gjalda – gefa sveitarfélögum innsýn í þau stefnumótunartól sem geta haft áhrif á ferðamátaval. Verkefnið mun einnig lyfta fram ákveðnum mikilvægum inntaksgildum í SLH sem nauðsynlegt er að endurskoða eða rannsaka nánar.

Tilgangur þessa verkefnis er einnig að þróa hið nýja líkan SLH enn frekar.  Hér verður því virkni líkansins skoðuð og sannreynt hvernig nýta megi það til að leggja mat á samspil gjalda og hvata.  Verkefnið er því einnig hugsað sem mikilvægur hluti af áframhaldandi þróun SLH líkansins.

Markmið þessa verkefnis er því í raun þríþætt;

  1. Að sannreyna virkni fjölferðamáta líkans til að svara breytingum á mikilvægum inntaksgildum.
  2. Beita líkaninu til að leggja mat á umferð í samræmi við svæðisskipulag
  3. Beita líkaninu til að leggja mat á þær aðferðir sem gætu skilað markmiðum um breyttar ferðavenjur

Markmið verkefnis er að nota líkanið á markvissan hátt til að styrkja við sýn svæðisskipulags og bæta innsýn eigenda þess um hvaða stefnumótandi aðgerðir gætu verið markvissar eða nauðsynlegar til að markmið um ferðavenjur náist. Aðgerðir sem þá er með meiri vitneskju hægt að taka afstöðu til.