Almenn verkefni 2022

Heiti verkefnis : 

Kolefnisspor þjónustu Vegagerðarinnar

Verkefnastjóri : 

 

Stutt lýsing á verkefninu:

 

Nokkrar greiningar hafa verið gerðar á  kolefnisspori framkvæmda hjá Vegagerðinni. Minna hefur verið gert að því að meta loftslagsáhrif af þjónustu Vegagerðarinnar en það er eitt af áherslum Rannsóknasjóðsins í ár. Markmiðið með þessu verkefni er að meta kolefnisspor starfsemi Vegagerðarinnar með áherslu á þjónustu Vegagerðarinnar og virðiskeðju þjónustunnar. Áhersla verður lögð á fimm meginflokka þjónustu: viðhald vegmerkinga, samningar við sveitarfélög, viðhaldssvæði, hreinsun vegsvæða og vetrarviðhald. 


Greindir verða þeir þættir í þjónustu Vegagerðarinnar sem teljast hafa bein áhrif á losun gróðurhúsalofttegunda auk þess sem mat verður lagt á sambærilega óbeina losun frá virðiskeðju þjónustunnar svo sem notkun á vegmálningu, áburði og fleiru í tengslum við sumarþjónustuna og notkun t.d. hálkuvarna við vetrarþjónustuna. Innkaup afurða og þjónustu í virðiskeðjunni fylgir mikil ábyrgð, þar sem nauðsynlegt er að Vegagerðin taki mið af umhverfisáhrifum og hafi hringrásarhugsun að leiðarljósi. Í verkefninu munu einnig verða skilgreindar leiðir til að lágmarka kolefnissporið og ljósi varpað á gæði þeirra gagna sem eru til staðar í dag við útreikninga. 


Nýnæmi verkefnisins er fólgin í því að mat er lagt í fyrsta skipti á kolefnisspor vegna þjónustu Vegagerðarinnar yfir allan vistferil þjónustunnar. Þær upplýsingar munu nýtast Vegagerðinni við stefnumótun og markmiðasetningu um lækkun á kolefnisspori vegna þjónustunnar m.a. við innkaup á vörum og þjónustu er tengjast þjónustunni og sem innlegg í skilgreiningu aðgerða til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í starfseminni. 


Nauðsynlegt er að Vegagerðin þekki eigin umhverfisáhrif í allri starfsemi hvort sem um er að ræða í framkvæmdum eða þjónustu, setji sér markmið um samdrátt losunar og skilgreini raunhæfar leiðir til að ná þeim markmiðum. Þetta verkefni er hugsað sem einn hlekkur í þeirri vegferð. 

Tilgangur og markmið:

 

Tilgangur verkefnisins er að meta kolefnisspor í starfsemi Vegagerðarinnar með áherslu á þjónustu Vegagerðarinnar og virðiskeðju þjónustunnar er tengjast innkaupum á vörum og utanaðkomandi þjónustu. Í því felst einnig að meta losun framleiðslu aðfanga eins og t.d. hálkuvarnir fyrir vetrarþjónustu og vegamálning fyrir sumarþjónustuna. Einnig að skilgreina mögulega leiðir til að minnka kolefnissporið og varpa ljósi á gæði gagna og eða skort á gögnum sem þarf til að Vegagerðin geti fengið heildstæða mynd af kolefnisspori þjónustu Vegagerðarinnar í dag. 


Meginmarkmið verkefnisins: 
 - Að greina og meta helstu losunarþætti sem Vegagerðin hefur bein áhrif á í þjónustuhluta starfseminnar. 
 - Að greina og meta helstu losunarþætti sem Vegagerðin hefur óbein áhrif á í þjónustuhluta starfseminnar (framleiðsla hráefna, flutningar, notkun o.fl.), með innkaupum á hráefnum eða þjónustu. 
 - Að greina hvaða þættir í starfsemi þjónustu Vegagerðarinnar hafa stærsta kolefnissporið. 
 - Að meta gæði gagna og skilgreina þau gögn sem nauðsynleg eru en liggja ekki fyrir eða eru ekki aðgengileg. 
 - Að koma með tillögur að aðgerðum til að minnka kolefnisspor þjónustu Vegagerðarinnar og virðiskeðju hennar. 


Rannsóknarspurningarnar eru þessar: 
1. Hver er bein losun gróðurhúsalofttegunda vegna þjónustu Vegagerðarinnar á Íslandi miðað við Greenhouse Gas Protocol og hvaða hluti þjónustunnar er helsti orsakavaldurinn miðað við árlega meðalnotkun? 
2. Hver er óbein losun gróðurhúsalofttegunda vegna þjónustu Vegagerðarinnar á Íslandi, í virðiskeðjunni er tengist þjónustunni, og hverjir eru helstu losunarþættirnir miðað við árlega meðalnotkun? 
3. Hvaða loftslagsmarkmið og aðgerðir getur Vegagerðin skilgreint og innleitt í sína starfsemi til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í tengslum við þjónustuna? 
4. Hver eru gæði gagna sem liggja fyrir og nauðsynleg eru til að meta kolefnisspor þjónustunnar? Hvaða gögn vantar til að meta heildstætt kolefnisspor þjónustunnar?