Almenn verkefni 2022

Heiti verkefnis : 

Vindaðstæður við brúarenda

Verkefnastjóri : 

 

Stutt lýsing á verkefninu:

 

Þekkt er að óhagstæðar og jafnvel hættulegar vindaðstæður geta skapast við brýr og sér í lagi við brúarenda. Mikilvægt er því við hönnun brúar að huga heildstætt að staðsetningu, legu og lögun  sem og frágangi við brúarenda til að milda áhrif sterkra vinda.

Með tölvuvæddum straumfræðihermunum má skilja betur vindaðstæður í kringum brúarenda og reyna að finna leiðir til að draga úr óhagstæðum skilyrðum við brúarenda og þannig draga úr slysahættu og auka umferðaröryggi.

Hermanir verða nýttar til að greina vindsvið við brýr í sterkum vindi. Lögð verður áhersla á að greina álagspunkta við brúarenda, vegna sterkra vinda, og varpa ljósi á aðstæður sem geta reynst hættulegar vegfarendum. Væntingar eru um að niðurstöður verkefnisins gefi hönnuðum innsýn í þær aðstæður sem myndast við brúarenda og hvernig hanna megi frágang við þá til að auka umferðaröryggi.

Tilgangur og markmið:

 

Tölvuvæddar straumfræðihermanir eru öflugt tól sem hægt er að nýta til að meta vindálag við brýr og  nærumhverfi þeirra. Kostur slíkra greininga er að hægt er að birta niðurstöður útreikninga á myndrænan máta sem auðveldar greiningu á álagspunktum og varhugaverðum aðstæðum sem skapast geta við brýr í sterku vindsviði.

Þekkt er að ákveðnir staðir eru vindasamari en aðrir, þar getur vindstyrkur magnast upp og sterkar hviðumyndanir fylgt í kjölfarið. Vindálag á bifreiðar eykst með vindhraða í öðru veldi og því er mikilvægt að draga úr vindhraða eins og hægt er til að minnka líkur á að ökumenn missi stjórn á farartækjum sínum.  Í ofanálag geta skarpar breytingar á vindhraða og vindstefnu, bæði tímaháðar og staðbundnar, verið varasamar. Slíkar breytingar geta komið ökumanni úr jafnvægi með alvarlegum afleiðingum. Að auki geta vetraraðstæður, svo sem hálka og snjósöfnun dregið úr veggripi og þar af leiðandi þarf minni vindstyrk til að skapa varasamar aðstæður fyrir ökumenn. Því er sérstaklega mikilvægt að huga að hönnun brúa á slíkum stöðum til að auka skjól og draga úr skörpum vindhraða- og stefnubreytingum eins og kostur er. 

Með aðstoð Vegagerðarinnar verður valin brú á Íslandi þar sem slys hafa orðið vegna vinds við brúarenda við ákveðnar aðstæður. Brúarendi brúarinnar verður stillt upp í líkani til greiningar á vindsviði sem getur skapað óhagstæð og óörugg skilyrði, þar sem áhersla verður lögð á að skilja aðstæður og álagspunkta betur.