Almenn verkefni 2022

Heiti verkefnis : 

Þróun á aðferð til að skoða undirstöður á brúm með fjölgeisladýptarmæli

Verkefnastjóri : 

 

Stutt lýsing á verkefninu:

 

Rannsaka kosti myndavéla og fjölgeislamæla til að skoða og meta undirstöður brúa, þ.e.a.s. geta skoðað undirstöðustaura bæði úr tré og steypu sem eru undir mörgum brúm á vegakerfinu, en víða háttar þannig til að yfirborð farvega hefur lækkað og þá er oft orðið holrúm undir sökklum þar sem vatnsstraumur mettaður jarðefnum t.d. í jökulám getur sorfið undirstöður stauranna,  einnig getur verið gott að geta skoðað sökkulundirstöður sem eru undir vatnsborði í jökulvatni  til að meta hvort rof hefur orðið  á klöppum undir sökklum.

 

Tilgangur og markmið:

 

Einn helsti hvatinn að þessu verkefni er að margar brýr í stofnvegakerfinu eru með tréstaura undir sökklum. Víða hefur yfirborð farvegs lækkað það mikið að rennsli ánna hefur hreinsað allar fyllingar undan sökklunum með þeim afleiðingum að mikið núningsálag er á gömlu tréstaurunum sem eru undir sökklunum. Hætt er við að flagnað hafi verulega af tréstaurunum en skert þvermál staura leiðir beint af sér skert burðarþol undirstaðanna. Sem dæmi um rofmátt má nefna að við rif brúar undir Stemmu á Breiðamerkursandi kom í ljós að tréstaurar undir millisökkli höfðu þvermál um 80-100 mm en höfðu upprunalega verið um eða yfir 200 mm. Tréstaurarnir höfðu þannig rýrnað um rúmlega helming á 30-40 árum.
Markmiðið er því að útfæra leiðir til að nota fjölgeislamæli og myndavélarbúnað í eigu Vegagerðarinnar til að kortleggja undirstöður brúar og í framhaldinu nota mælingar til að staðfesta burðargetu undirstaða með útreikningum.
Þessi rannsóknaraðferð gæti nýst við að staðfesta burðargetu eldri brúarundirstaða gagnvart sífellt vaxandi álagslestum í þjóðvegakerfinu án þess að þurfa að huga að rifi og byggingu nýrra mannvirkja. Með tilliti til umhverfissjónarmiða, væri framlenging á líftíma mannvirkja í rekstri álitlegri kostur en niðurrif og nýbyggingar. Eins væri hægt að framlengja líftíma ákveðinna mannvirkja með því að takmarka leyfilegar þyngdir með tilliti burðargetu undirstaða og tryggja þannig að mannvirkið geti verið lengur í rekstri.