Almenn verkefni 2023

Heiti verkefnis : 

Stífni og sveiflueiginleikar íslensks jarðvegs og jarðsniða

Verkefnastjóri : 

 

Stutt lýsing á verkefninu:

 

Upplýsingar um eiginleika jarðvegs eru mikilvægar við hönnun mannvirkja. Íslensk setlög eru jarðfræðilega ung og frábrugðin þeim sem finna má í nágrannalöndum. Upplýsingar um aflfræðilega eiginleika þeirra verða því ekki eingöngu sóttar í erlendar rannsóknaniðurstöður heldur þarf að afla þeirra með staðbundnum hætti. Meginmarkmið verkefnisins er þríþætt. Í fyrsta lagi að þróa frekar samþættar yfirborðsbylgjumæliaðferðir til að meta stífnieiginleika (skúfbylgjuhraða) íslensks jarðvegs. Áhersla verður lögð á rannsóknir á stöðum þar sem setlög eru þykk og á þróun aðferða sem nýtast til að meta dýpi niður á fast eða stíf jarðlög innan setlagastaflans. Í öðru lagi snýr verkefnið að rannsóknum á stífni-, styrk- og dempunareiginleikum íslensks jarðvegs með tilraunastofuprófunum. Jarðsýnum verður safnað á skilgreindum prófunarsvæðum og þau greind með nýjum skúfboxbúnaði Umhverfis- og byggingarverkfræðideildar HÍ. Í þriðja lagi lýtur verkefnið að greiningu á staðbundinni sveiflumögnun valinna jarðsniða með tölulegum aðferðum. Við þá greiningu verður byggt á niðurstöðum felt- og tilraunastofumælinganna. Tölulegt mat á sveiflumögnun jarðlaga nýtist til samanburðar við hönnunarróf sem skilgreind eru í nýrri útgáfu Eurocode 8 (EC8) og við gerð uppfærðra þjóðarskjala með staðlinum. Samhliða er ætlunin að safna niðurstöðum mælinga saman í gagnagrunn í opnum aðgangi sem nýtast mun hönnuðum og rannsakendum. Í verkefninu verður sjónum beint að svæðum á Suðurlandsundirlendinu þar sem vitað er að setlög eru þykk, svo sem í námunda við Markarfljótsbrú og Landeyjahöfn.

Tilgangur og markmið:

 

Tilgangur og markmið verkefnisins eru eftirfarandi:

1. Að byggja upp frekari reynslu og þekkingu á samþættingu aktífra og passífra yfirborðsbylgjumælinga við íslenskar aðstæður. Áhersla verður lögð á frekari þróun aðferða sem henta til ákvörðunar á skúfbylgjuhraða og lagskiptingum á svæðum þar sem setlög eru þykk (meira en 15–30 m).

2. Að kortleggja náttúrulega tíðni mælistaða og þykkt setlaga með samþættri notkun HVSR-tækni og yfirborðsbylgjumælinga. Niðurstöðurnar munu verða nýttar til að aðlaga reynslulíkingar, sem tengja saman náttúrulega tíðni setlagastafla og dýpi á fast, að eiginleikum íslenskra jarðefna.

3. Að meta styrk-, stífni- og dempunareiginleika íslenskra jarðefna með tilraunastofuprófunum.

4. Að greina staðbundna sveiflumögnun (e. seismic site amplification) valinna jarðsniða með tölulegum aðferðum. Niðurstöður munu m.a. nýtast við gerð uppfærðra þjóðarskjala með nýjum jarðskjálftastaðli (Eurocode 8, EC8), þar sem ríkari áhersla er lögð á staðbundin jarðskjálftaáhrif en gert er í núgildandi staðli.

5. Að byggja upp og viðhalda opnum gagnagrunni sem gerir hönnuðum, rannsakendum og öðrum mögulegt að nálgast og bera saman niðurstöður mælinga frá mismunandi stöðum.