Almenn verkefni 2023

Heiti verkefnis : 

Finnst hin fágæta machair vistgerð ofan skeljasandstranda Íslands

Verkefnastjóri : 

 

Stutt lýsing á verkefninu:

 

Á norðvestanverðum Bretlandseyjum er að finna fágæta vistgerð, svokallaða machair vistgerð, en talið er að hún finnist einvörðungu á þessu svæði. Sökum fágætis og sérstaks lífríkis nýtur vistgerðin verndar á Bretlandseyjum og er hún á lista Bernarsamningsins yfir vistgerðir sem eru verndar þurfi. Tilvist machair vistgerðar er háð ákveðum umhverfisþáttum en ein meginforsendan er sú að jarðvegur er að meginhluta skeljasandur. Ýmislegt bendir til að skilyrði fyrir machair vistgerðina sé að finna hér á landi upp af skeljasandströndum á ákveðnum svæðum á Vesturlandi og Vestfjörðum. Með þessu rannsóknarverkefni verður kannað hvernig plöntusamsetningu og jarðvegseiginleikum er háttað ofan skeljasandsstranda og leitast við að skera úr um hvort hin fágæta vistgerð finnist í raun hér á landi. 

Tilgangur og markmið:

 

Megintilgangur rannsóknarinnar er að kanna hvort hin fágæta machair vistgerð finnist á Íslandi á svæðum þar sem skeljasandur er áberandi í jarðvegi. Verður það gert með því að kortleggja gróður og greina plöntusamsetningu og jarðvegseiginleika í machair tilgátuvistgerð og nálægum vistgerðum sem talist geta hluti af machair tilgátuumhverfi (machair complex). Markmiðið er að svara eftirfarandi spurningum:

1.  Hvaða vistgerðir er að finna í machair tilgátuumhverfi hér á landi?

2.  Hvernig er plöntusamsetningu og jarðvegseiginleikum í machair tilgátuvistgerð háttað?

3.  Eru plöntusamsetning og jarðvegseiginleikar frábrugðin öðrum sambærilegum svæðum ofan sandstranda hérlendis sem ekki hafa skeljasand sem ríkjandi jarðvegsefni? Ef svo, hver eru sérkenni þeirra?

4.  Eru plöntusamsetning og jarðvegseiginleikar sambærileg því sem finnst í machair vistgerð á norðvestanverðum Bretlandseyjum og er hægt að segja að vistgerðin finnist á Íslandi?

5.  Ef svo er, hver er möguleg útbreiðsla machair umhverfis og machair vistgerðar á Íslandi?