Almenn verkefni 2023

Heiti verkefnis : 

Uglur og vegir

Verkefnastjóri : 

 

Stutt lýsing á verkefninu:

 

Á undanförnum árum hafa safnast upplýsingar um veiðihegðun ugla á Íslandi þar sem sést að á sumum svæðum veiða uglur gjarnan meðfram vegum. Ekki er ljóst hvað veldur því að uglur virðast sækjast í að veiða meðfram vegum en ljóst er að aukin hætta er á árekstrum við bíla. Af sex branduglum sem merktar voru með senditækjum sumarið 2022 lentu þrjár í árekstrum við bíla. Í þessari rannsókn verður sjónum beint að þremur búsvæðagerðum (1-votlendi, 2-mólendi, 3-sandlendi) og svæðanotkun ugla, sem og þéttleiki bráðar, skoðuð með tilliti til fjarlægðar frá þjóðvegum. Tilgátan er sú að 1) uglur sæki í mýs umfram aðra bráð og 2) að þéttleiki músa sé hærri nær vegum en fjær þeim í votlendi og sandlendi en ekki í mólendi. Niðurstöðurnar má nota til að útfæra vegaframkvæmdir á þann hátt að lágmarka megi árekstrahættu við sjaldgæfa fugla eins og uglur. 

Tilgangur og markmið:

 

Tilgangur verkefnisins er að afla upplýsinga um svæðanotkun brandugla sem eiga óðul nærri vegum í þremur algengum gerðum búsvæða. Þetta er gert til að hægt sé að bera saman áhættu á árekstrum eftir búsvæðum og eftir atvikum finna leiðir til að minnka slíka áhættu.

Markmiðið er að safna óbjöguðum upplýsingum um svæðanotkun með því að notast við 6 GPS/GSM senditæki sem hengd verða á uglurnar og skoða í samhengi við legu þjóðvega. Fæða uglanna verður skráð nákvæmlega með því að safna fæðubögglum (e. pellet) sem uglurnar skila uppúr sér á hvíldarstöðum. Þéttleiki bráðar (hagamúsa og fugla) verður mældur í mismunandi fjarlægð frá vegum. Með framangreindum upplýsingum verður hægt að sjá hvort uglur sæki í að veiða við vegi í mismunandi búsvæðum, hvaða bráð þær eru að sækja í og hvort að þéttleiki þeirrar bráðar sé tengdur fjarlægð frá vegum í viðkomandi búsvæðagerð.

Tilgáturnar eru:

a) uglur velja mýs framyfir aðra bráð s.s. spörfugla og vaðfugla

b) þéttleiki flestra fuglategunda eykst með fjarlægð frá vegi

c) þéttleiki músa er hæstur næst vegum á votlendissvæðum og í sandlendi en óháður fjarlægð frá vegi í mólendi

d) uglur velja veiðisvæði sem hámarka möguleika þeirra á að ná músum