Almenn verkefni 2023

Heiti verkefnis : 

Endurskoðun EC7 og þjóðarviðauka, jarðtæknihönnun

Verkefnastjóri : 

 

Stutt lýsing á verkefninu:

 

Endurskoðun á jarðtæknistaðlinum Eurocode 7 ásamt íslenskum þjóðarviðauka stendur nú yfir og hefur gert frá árinu 2010. Eurocode 7 hefur verið tekinn upp hérlendis sem og á hinum Norðurlöndunum og gildir um alla jarðtæknilega hönnun og rannsóknir og er einn af skyldubundnu þolhönnunarstöðlunum skv. byggingarreglugerð. Norrænu jarðtæknifélögin hafa stofnað „spegilnefnd“ um verkefnið (Nordic Mirror Group for EuroCode 7, NMGEC7) og taka virkan þátt í endurskoðuninni sem einn hópur. Þannig reynir spegilnefndin að samræma skoðanir og vilja allra aðildarlandanna varðandi væntanlegar breytingar. Íslendingar eiga 3 fulltrúa í spegilnefndinni þá Davíð Rósenkrans Hauksson, Þorgeir S. Helgason og Benedikt Stefánsson.

Talið er mjög mikilvægt að hagsmuna Íslands sé gætt í verkefninu, og þar sem jarðtækni er stór þáttur í starfi Vegagerðarinnar er talið nauðsynlegt að sjónarmið hennar komi fram og að niðurstöður séu kynntar starfsmönnum, ráðgjöfum og verktökum Vegagerðarinnar.

Endurskoðun EC7 er langtímaverkefni og er ný útgáfa mjög langt komin. Hún er nú í rýni og verið að leggja lokahönd á verkið. Meginvinnan hér eftir verður því í að uppfæra íslenska þjóðarviðauka áður en staðlarnir þrír sem mynda nýju útgáfuna af Eurocode 7 taka gildi innan tveggja ára eða svo.

Vinna íslensku spegilnefndarinnar að þjóðarviðaukum við EC7 fer fram í samstarfi og á sameiginlegum fundum með vinnuhópi sem Byggingastaðlaráð (BSTR) hefur skipað til gerðar viðaukanna.

Þegar ný útgáfa liggur fyrir er stefnt að almennri kynningu á staðlinum á meðal jarðtæknifólks og hagsmunaaðila en nú þegar hafa helstu breytingar verið kynntar.

Tilgangur og markmið:

 

Tilgangurinn er að standa vörð um hagsmuni Íslands og þar með Vegagerðarinnar og hafa rödd þegar reglur og leiðbeiningar EC7 eru mótaðar. Gæta þarf þess að ákvæði staðalsins og breytingar á honum passi íslenskum aðstæðum. Þá þarf íslenskur þjóðarviðauki að endurspegla þær breytingar sem eru gerðar, en megin vinnan næstu misserin verður í uppfærslu á íslenska þjóðarviðaukanum. Einnig þarf að stuðla að áframhaldandi kynningu staðalsins á Íslandi og aðstoða við innleiðingu hans.