Almenn verkefni 2023

Heiti verkefnis : 

Notkun aflögunarmæla shape array í Þorskafirði

Verkefnastjóri : 

 

Stutt lýsing á verkefninu:

 

Búið er að koma fyrir sjálfvirkum aflögunarmæli, SAAX (https://measurand.com/), í vegfyllingu við þverun Þorskafjarðar vestan við brúarstæðið. Mælirinn er 50 metra langur og hver hlekkur 1 meter á lengd, en aflögun er mæld á milli hlekkja. Mælirinn sendir mælingu til baka upp í ský á 4 tíma fresti og því hægt að fylgjast mun nákvæmar með þróun sigferils og spara þannig tíma og peninga og draga úr áhættu. Samhliða því sem SAAX var komið fyrir, var tveimur sigplötum komið fyrir í sitthvorum vegkantinum fyrir ofan aflögunarmælinum.

Í Þorskafirðinum má búast við talsverðu sigi og erfitt að mæla á sigslöngur með hefðbundnum mæliaðferðum. Hefðbundnar handvirkar mælingar á verkstað eru tímafrekar, veður þarf að vera stillt og blása þarf úr rörum þar sem vatn er mikið auk þess sem sig fyllingar er í krítískri tímalínu verksins. Aflögunarmælinum er ætlað að mæla sjálfvirkt jarðvegsaflögun á láréttan flöt, en aðferðin hefur verið notuð í Noregi (t.d. sjófyllingar og fjarðaþveranir) (https://measurand.com/project-profiles/seabed-subsidence-monitoring/).

Mikilvægt er að farg sé sett á í áföngum og að undirlag fái tíma til að jafna sig milli laga og að fullnægjandi sig eða aflögun sé komið fram áður en vegur er fullkláraður með slitlagi. Því þarf að fylgjast náið með sigi til að vita hvenær má halda áfram að fylla og nægjanlegu sigi er náð þ.a. aflétta megi fargi. Til þessa hefur einungis verið mælt á sigplötur í Þorskafirði, en þær gefa ekki sig eftir þversniði vegarins auk þess sem fara þarf á staðinn og mæla. Þá er alltaf einhver hætta á því að keyrt sé á sigplötur sem getur þá aftur valdið óvissu í mælingum sem og viðbótarkostnaði.

Hugmyndin með þessu verkefni að bera saman mælingar SAAX við sigplötumælingar og segja frá búnaðinum og verklagi við að koma mælinum fyrir. Ef vel reynist gæti þetta verið framtíðaraðferð við mælingar á sigi í undirlagi vega þar sem hefðbundnar sigplötur eru ekki nóg en einnig þar sem vegur er á hreyfingu svo sem við Almenninga.

Tilgangur og markmið:

 

Mikilvægt er að Íslendingar sem eru fámenn þjóð í víðfeðmu landi noti, kynni sér, aðlagi og kvarði aðferðarfræði sem reynst hefur vel annars staðar í heiminum. En íslenskar aðstæður eru yfirleitt frábrugðnar erlendum aðstæðum að einhverju leiti. Hugmyndin í þessu rannsóknarverkefni er að kanna möguleika á notkun sjálfvirkra mælinga vegna formbreytinga undir og við vegbyggingar og önnur samgöngumannvirki. Hugmyndin er að taka saman heimildir og reynslu annarra þjóða sem og að sannreyna og kvarða mælingar í Þorskafirði.

Rannsóknarverkefnið leiðir vonandi til betri og nákvæmari mælinga á sigi og sparar handvirkar mælingar sem verið er að framkvæma í dag. Með þessu móti má hugsanlega spara fjármagn, tíma og fá tíðari og nákvæmari mælingar, auk þess sem áhætta vegna brots í undirlagi vegna ofhleðslu á fargi er minnkuð til muna.

Með tíðari sigmælingum opnast einnig möguleiki fyrir hönnuði að endurskoða sigspár með reglulegu millibili og þannig spara tíma og mögulega efnismagn í fergingar. Ef sig er minna heldur en gert var ráð fyrir má hugsanlega minnka yfirhæð, en að sama skapi ef sig er mun meiri en spár gerðu ráð fyrir þarf hugsanlega að bæta við farghæð til þess að vegbygging verði stöðugra mannvirki yfir líftíma vegarins.

Þá kæmi einnig til greina að setja upp tillögu að skema hvenær æskilegt væri að ráðast í umfangsmeiri sigmælingar, þá annað hvort þvert eða langsum eftir nýjum vegi, og hvenær hefðbundnar sigplötumælingar eru nægjanlegar.