Almenn verkefni 2023

Heiti verkefnis : 

Brýr í hringrásarhagkerfi

Verkefnastjóri : 

 

Stutt lýsing á verkefninu:

 

Byggingariðnaðurinn er ábyrgur fyrir gríðarlegu magni af notkun auðlinda og myndun úrgangs á heimsvísu (bæði niðurrifsúrgangs og úrgangs frá framkvæmdum) og gegnir því mikilvægu hlutverki þegar kemur að því að koma á hringrásarhagkerfi. Hringrás byggingarefna getur einnig átt stóran þátt í því að draga úr umhverfisáhrifum byggingariðnaðarins.

Að koma á hringrásarhagkerfi kallar á breytingu á núverandi kerfum og aðferðum sem byggja á línulega hagkerfinu. 

Þörfin er skýr en leiðir til að ná fram breytingum og hvað þarf til hefur enn ekki verið kortlagt að fullu. Það sem hins vegar er ljóst er að breytingar krefjast ákveðins ramma til að festa hringrásarhugsun og aðgerðir í sessi við hefðbundna mannvirkjagerð. Mikilvægt er að hugsa um hringrásina frá fyrstu stigum hönnunar og horfa yfir allan vistferilinn.

Verkefnið byggir á vinnu seinustu tveggja ára fyrir Rannsóknasjóð Vegagerðarinnar. Á síðasta ári var sett fram aðferðafræði til að mæla hringrásareiginleika brúa og hún prófuð með því að mæla og bera saman hringrásareiginleika fyrir tvo valkosti fyrir sama brúarstæði.

Lagt er mat á hringrásareiginleika með því að reikna út tvo stika, annars vegar svokallaðan hringrásarvísi fyrir efni (e. Material Circularity Indicator) sem tekur tillit til ágangs á auðlindir og hins vegar umhverfiskostnað (e. Environmental Cost Indicator) sem tekur tillit til umhverfisáhrifa. Aðferðafræðin hefur það að meginmarkmiði að bera kennsl á leiðir til að draga úr ágangi auðlinda, hámarka verðmæti þeirra og líftíma og fyrirbyggja að þær verði að úrgangi.

Áhersla þessa árs verður á að sýna fram á hvernig má:

a) bæta hringrásareiginleika (hækka hringrásarstuðulinn Material Circularity Indicator) en áhrifarík leið til þess er að huga að endurnýtingu brúarhluta við hönnun (e. Deisgn for Disassembly) og

b) hvernig má nýta Umhverfiskostnað við samanburð boðinna lausna í útboðum.

Tilgangur og markmið:

 

Forsendur fyrir því að innleiða hringrásarhagkerfið er samráð og samvinna milli ólíkra aðila; fræðsla, yfirfærsla þekkingar og miðlun lausna – Samstillt átak er nauðsynlegt til að breyta áherslum bæði í hönnun og efnisnotkun. Slík samvinna getur leitt til þess að borin séu kennsl á þau tækifæri og hindranir sem eru til staðar auk þess sem það getur haft í för með sér að skapa nýja þekkingu. Eitt af markmiðum verkefnisins er þekkingardeiling og alþjóðlegt samstarf sem nýst getur við hönnun og rekstur brúa á Íslandi.

Mikilvægt er að huga vel að notkun og nýtingu allra auðlinda og þarf það verklag að gilda allt frá frumstigum hönnunar. Gerð leiðbeininga og skilgreining viðmiða eru mikilvægt skref í kerfislægri innleiðingu verkferla sem eru ekki til staðar í dag og bera opinberir aðilar s.s. Vegagerðin ábyrgð í að setja gott fordæmi. Þannig fellur verkefnið að markmiðum Rannsóknarsjóðs fyrir 2022 með því að afla nýrrar þekkingar og beina sjónum að sjálfbærni og umhverfisáhrifum brúarmannvirkja. Verkefnið styður við hlutverk Vegagerðarinnar um sjálfbærar samgöngur og þróun þeirra í samræmi við markmið.

Meginmarkmið verkefnisins þetta árið er að nýta vinnu fyrri ára og bera kennsl á leiðir til að bæta hringrásareiginleika í brúarhönnun. Áhrifarík leið til þess er „Design for disassembly“, og í verkefninu verður sýnt fram hvernig útreiknaður hringrásarstuðull hækkar við slíkar áherslur í hönnun. [GMG1] Jafnframt verður unnið með hvernig útreiknuð umhverfisáhrif [GMG2] hannaðra lausna geta nýst við samanburð í útboðum. Allt miðar þetta að því að undirbyggja innleiðingu hringrásarhugsunar í hönnun brúa á Íslandi.

Verkefnið tengist með beinum hætti eftirfarandi Heimsmarkmiðum:

o   Nýsköpun og uppbygging

o   Ábyrg neysla og framleiðsla

o   Aðgerðir í loftlagsmálum