Almenn verkefni 2023

Heiti verkefnis : 

Vöktun útbreiðslu lúpínu vegna framkvæmda við nýbyggingu Skriðdals og Breiðdalsvegar ásamt brú yfir Gilsá á Völlum

Verkefnastjóri : 

 

Stutt lýsing á verkefninu:

 

Til standa vegaframkvæmdir á Skriðdals- og Breiðdalsvegi við Gilsá/Grímsárvirkjun (kafli 95-02). Við framkvæmdirnar verður m.a. notað efni frá efnistökusvæðum þar sem alaskalúpína vex og fræ hennar eru því til staðar í jarðveginum. Flutningur efnis af þessu svæði hefur valdið áhyggjum um aukna útbreiðslu lúpínu á og við framkvæmdasvæðið í kjölfar framkvæmda. Til þess að sporna við því stendur til að hreinsa um 30-40 cm lag ofan af námusvæðum þar sem lúpínugróður er og nota sem mest efni frá lúpínulausum námasvæðum í fyllingar, vakta útbreiðslu lúpínu á svæðinu í kjölfar framkvæmda og halda henni í skefjum skyldi hún fara að breiðast út. Grunnathugun hefur þegar farið fram, en að beiðni Sveins Sveinssonar hjá Vegagerðinni gerði Náttúrustofa Austurlands (NA) athugun á útbreiðslu lúpínu við framkvæmdasvæðið og á efnistökusvæðum þann 20. september 2021, sem var viðbótargróðurskoðun í verkinu.

Verkefnið felur í sér árlega úttekt á útbreiðslu lúpínu fyrstu fimm árin eftir að framkvæmdum lýkur. NA mun fara í eftirlitsferðir á hverju sumri og kortleggja útbreiðsluna. Niðurstöðum verður skilað til Vegagerðarinnar eins fljótt og auðið er eftir hverja eftirlitsferð svo hægt sé að grípa til aðgerða ef þurfa þykir, áður en lúpína fer að dreifa fræi seinna um sumarið. Í lok tímabilsins, eftir fimm úttektir, verður árangur af aðgerðum metinn og framhald vöktunar ákveðið í samvinnu við Vegagerðina. Í árangursmatinu verða teknir saman nýir vaxtarstaðir lúpínu, langlífi og útbreiðsla lúpínu á þeim, sem og á útbreiðslusvæðum sem skráð voru í grunnathugun. Hér er um að ræða einfalt og ódýrt verkefni sem getur nýst til að sporna við raunverulegum ógnum við íslensk vistkerfi og líffjölbreytni.

Tilgangur og markmið:

 

Markmið verkefnisins er að meta áhrif vegaframkvæmda á útbreiðslu framandi ágengra tegunda vegna notkunar efnis sem tekið er af svæðum þar sem lúpína vex, auk þess að meta árangur af aðgerðum til að halda henni í skefjum. Tilgangur þess er að auka þekkingu á áhrifum einfaldra, árlegra aðgerða til að halda dreifingu lúpínu í skefjum fyrstu fimm árin eftir framkvæmdir þar sem notaður er efniviður með lúpínufræi.

Rannsóknarspurningin sem svarað verður árlega í minnisblaði til Vegagerðarinnar er: Hvernig hefur útbreiðsla lúpínu breyst í kjölfar vegaframkvæmda og aðgerða til að halda henni í skefjum?

Rannsóknarspurningarnar sem svarað verður í lok rannsóknar eru: Hver er útbreiðsla lúpínu á framkvæmdasvæðinu, fimm árum eftir lok framkvæmda? Hvaða áhrif hafa aðgerðir til að halda lúpínu í skefjum í kjölfar framkvæmda haft á útbreiðslu hennar þar?

Verkefnið hlaut styrk frá Rannsóknasjóðnum í fyrra og þessi umsókn er sú sama og send var inn þá, sbr. tölvupóstsamskipti við Ólaf Svein Haraldsson þann 17. janúar 2023. Hér er því um að ræða umsókn um styrk fyrir öðru ári vöktunarinnar.