Almenn verkefni 2023

Heiti verkefnis : 

Þolhönnun á stálþiljum við íslenskar aðstæður

Verkefnastjóri : 

 

Stutt lýsing á verkefninu:

 

Tilgangur verkefnisins er að fara yfir þolhönnun hafnarbakka á Íslandi. Áhersla er lögð á að bera saman hönnunarálag á stálþil samkvæmt gildandi hönnunarstöðlum (þ.e. fræðileg gildi)[1],[2] og raunverulegt álag m.t.t. byggingaraðferðar og íslenskra aðstæðna. Leitast verður við að leggja mat á eiginlegt álag og þar með öryggi í þolhönnun á stálþiljum hérlendis og hvort stuðla megi að betri nýtingu eða endingu á byggingarefnum með bættum hönnunaraðferðum. Þá er sérstaklega horft til þess að skoða hvernig jarðþrýstingur á stálþil þróast við niðurrekstur í skurð eða náttúrulega botn, við bakfyllingu og stögun, frágang á kantbitum og þekju, dýpkunar og að lokum þegar hafnarbakkinn er tekinn í notkun.

[1] ÍST EN 1997-1:2004. Eurocode 7: Geotechnical design - Part 1: General rules og ÍST EN 1997-1:2004/NA:2010. Þjóðarviðauki við Eurocode 7.
[2] Committee for Waterfront Structures of the German Port Technology Association and the German Geotechnical Society, 2015. EAU 2012 - Recommendations of the Committee for Waterfront Structures Harbours and Waterways, 9. útgáfa (ensk þýðing á 11. útgáfu á þýsku). Erns & Sohn, Hamborg.

Tilgangur og markmið:

 

Tilgangur þessa verkefnis er að útbúa yfirlit yfir þær hönnunaraðferðir sem notaðar eru við þolhönnun á stálþiljum fyrir íslenska hafnarbakka og bera saman við raunverulegt spennuástand í stálþilsplötum m.t.t. byggingaraðferðar og íslenskra aðstæðna, s.s. jarðefni bakfyllingar og jarðgrunn. Áætlað er að það verði gert með eftirfarandi atriðum:

1.       Taka saman yfirlit yfir þær aðferðir sem notaðar eru í þolhönnun hafnarbakka á Íslandi

2.       Gera grein fyrir mismunandi byggingaraðferðum

3.       Vinna fræðilega samantekt á væntri spennuaukningu í stálþili m.t.t. punkts 2

4.       Greina mismuninn á punkti 1 og punkti 3, t.d. með reiknilíkönum sem notast við einingaaðferðina

5.       Einnig verður kannaður fýsileiki þess að mæla spennuástand beint í stálþilsplötum á mismunandi byggingarstigum

Skoðað verður hvernig jarðþrýstingur á stálþil (og þar með hönnunarálag) þróast við niðurrekstur í skurð eða náttúrulegan botn (hvíluþrýstingur), við bakfyllingu og stögun (passíft og aktíft ástand), frágang á kantbitum og þekju, dýpkunar og að lokum þegar hafnarbakkinn er tekinn í notkun.

Markmiðið er að leggja mat á öryggi og efnisþörf við hönnun stálþilsbryggja hérlendis.