Almenn verkefni 2023

Heiti verkefnis : 

PTO í þjálbik á Íslandi

Verkefnastjóri : 

 

Stutt lýsing á verkefninu:

 

Umhverfismál eru í miklum brennidepli í samfélaginu í dag, enda loftslagsbreytingar staðreynd og mikilvægt að bregðast við og sporna við þeim eftir fremsta megni. Lækkun kolefnisfótspors og minnkun umhverfisáhrifa er dæmi um aðgerðir sem gripið hefur verið til í baráttunni við loftslagsbreytingar. Þjálbik er víða á Íslandi notað í klæðingar vega en árlega eru framleiddir yfir 3 milljón lítrar af efninu hjá Colas Ísland. Þjálbik er blanda af mjúku biki (stungudýpt 160/220), viðloðunarefni og 6,5% ethyl ester. Colas Ísland hefur nýlega, í samstarfi við móðurfélag sitt í Frakklandi, hafið tilraunir á notkun á PTO olíu (Pitch tall oil) sem er unnin úr hliðarafurðum pappírsframleiðslu. Þar sem PTO olía er unnin úr trjám, er kolefnisspor efnisins neikvætt. PTO er mýkra en bik, og því kviknaði sú hugmynd hvort hægt væri að nota það til að þynna bik og framleiða þjálbik og þar með kolefnisjafna þjálbikið án þess að hafa áhrif á gæðin. Colas Ísland hefur nú þegar unnið forrannsóknir, sem benda til þess að þetta sé möguleiki en frekari rannsókna er krafist. Tilgangur þessa verkefnis er að kanna frekar möguleikana á að nota PTO í þjálbik með því að þróa blönduna enn frekar og að lokum framkvæma raunblöndupróf til að kanna viðloðum PTO blandaðs þjálbiks og steinefna.

Tilgangur og markmið:

 

Tilgangur verkefnisins er að sannreyna hvort PTO blandað þjálbik standist þær kröfur sem gerðar eru á Íslandi, með tilliti til seigju og viðloðunar, með því að þróa þjálbiksblöndu með PTO og prófa viðloðun blöndunnar í raunblönduprófi. Markmiðið er að þróa kolefnishlutlaust PTO blandað þjálbik, sem væri stórt skref í grænni vegagerð á Íslandi og baráttunni við loftslagsbreytingar.