Almenn verkefni 2023

Heiti verkefnis : 

Fuglalíf við hálendisvegi

Verkefnastjóri : 

 

Stutt lýsing á verkefninu:

 

Örar breytingar eru að verða á náttúru Íslands vegna aukinnar landnýtingar og loftslagsbreytinga og nauðsynlegt er að rannsaka hvort þessar breytingar hafi áhrif á náttúrufar á stórum svæðum. Þéttleiki fugla getur endurspeglað stöðu lífríkis á svæðum vel þar sem þeir eru ofarlega í fæðukeðjum, auðtaldir og áberandi.1 Vöktun á fuglum fer fram á ári hverju á nokkrum stöðum á láglendi Íslands en hálendið hefur orðið útundan.2-7 Til að vakta fugla með sem minnstum tilkostnaði er vænlegt að telja meðfram vegum á föstum punktum.3 Í verkefninu er fyrirhugað að slá tvær flugur í einu höggi, að koma upp vöktunarkerfi á fuglum á hálendinu og afla um leið upplýsinga um fuglalíf meðfram hálendisvegum. Kjalvegur og vegur um Sprengisand og Kvíslaveitur eru tilvaldir í þetta verkefni en bæði Kjalvegur og vegur um Sprengisand ná þvert yfir hálendið og í gegnum fjölbreytt búsvæði. Þetta eru jafnframt þær leiðir sem helst koma til greina ef vegtengingar milli Suðurlands og Norðurlands verða bættar. Talningar fara fram sumarið 2023 og afurðin verður fyrsta skref í vöktun á fuglalífi á hálendinu. Þessar upplýsingar nýtast einnig sem grunnupplýsingar um fuglalíf meðfram hálendisvegum vegna framtíðaráforma um uppbyggingu á vegköflum eða vegum á hálendinu.

Tilgangur og markmið:

 

Markmiðið er að kanna fuglalíf meðfram hálendisvegum og að athugunin verði liður í vöktun á fuglum á miðhálendi Íslands. Fuglar verða taldir á föstum punktum á u.þ.b. 3-5 km fresti meðfram Kjalvegi, Sprengisandsleið og Kvíslaveituvegi sumarið 2023. Einnig verður talið á völdum stöðum á gróðureyjum í grennd við vegina þar sem fuglalíf gæti verið sérlega ríkulegt og viðkvæmt fyrir umferð eða raski.

Athugun fór fram á Kjalvegi sumarið 2021 þar sem var stoppað u.þ.b. 3 km fresti og fuglar taldir með stöðluðum hætti frá Gullfossi að Blöndulóni en starfsmenn Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Suðurlandi töldu. Það eru því til grunnpunktar á Kjalvegi en engar slíkar athuganir hafa verið gerðar á Kvíslaveituvegi og Sprengisandsleið.

Niðurstöður verða birtar í skýrslu til Vegagerðarinnar fyrir árið 2023 ásamt talningum frá Kjalvegi 2021. Áætlað er að vakta á 3-5 ára fresti þessa hálendisvegi eða oftar ef fjármagn fæst í örari vöktun. Niðurstöður verða birtar á heimasíðu setursins. Einnig verður birt grein þegar athuganir hafa náð a.m.k. fimm sumrum eða yfir 10 ára tímabil.

 

Vegagerðin getur einnig nýtt niðurstöður úr þessu verkefni fyrir matskyldu, ef lagfæringar eða uppbyggingar á hálendisvegum eru áætlaðar.