Almenn verkefni 2023

Heiti verkefnis : 

Örmengunarefni í ofanvatni af vegum

Verkefnastjóri : 

 

Stutt lýsing á verkefninu:

 

Ofanvatni af vegum og öðrum yfirborðum er mjög víða veitt ómeðhöndluðu í næsta viðtaka. Það er vel þekkt að ofanvatnið inniheldur ýmis mengunarefni, og því meiri umferð, því meiri mengun. Helst hefur verið fjallað um næringarefni (P og N), þungmálma og  PAH (fjölarómatísk vetniskolefni). Í þessu verkefni verða hinsvegar skoðaðir örmengunarvaldar (e. Emerging pollutants) sem eru mengunarefni sem finnast í lægri styrk, en eru oft þrávirk, byggjast upp í kerfum, og eru með alvarleg eitrunaráhrif. Stefnt er að því að skoða þrjá hópa örmengunarvalda, PFAS, eldtefjandi efni og fenóla.

Í verkefninu verða teknar saman nýjustu rannsóknir á styrk þessara efna í ofanvatni og vatnshlotum erlendis. Einnig verða leiðbeiningar sem yfirvöld eru að byrja að gefa út varðandi þessi efni teknar saman og þá verða framkvæmdar mælingar þar sem mældur verður styrkur þessara efna í ofanvatni frá þjóðvegi (ÁDU 56000) og til samanburðar léttu iðnaðarhverfi og íbúahverfi á sama svæði.

Tilgangur og markmið:

 

Í umhverfið berast sífellt flóknari manngerð efni. Þeim er ætlað að leysa ákveðin vandamál en skapa fjölda nýrra vandamála í náttúrunni, sérstaklega í sjávar- og vatnavistkerfum þar sem þau geta byggst upp og valdið eitrunaráhrifum upp keðjuna. Ofanvatn ber með sér mengun frá þeim yfirborðum sem það fer um, og núverandi meðferð ofanvatns þýðir að sú mengun skilar sér beint í næsta viðtaka. Enn er óljóst magn örmengunarefna í ofanvatni frá ólíkum svæðum, og því mikilvægt að kanna stöðu mála svo hægt sé að ákvarða næstu skref.

Markmið verkefnisins eru eftirfarandi

·         Kortleggja alþjóðlega stöðu þekkingar um styrk örmengunarefna í ofanvatni

·         Kortleggja alþjóðlegar lagakröfur/leiðbeiningar um hámarksstyrk örmengunarefna í ofanvatni og viðtökum

·         Kanna hvort mengun frá íslenskum þjóðvegi sé meiri en frá léttu iðnaðarsvæði og íbúasvæði