Almenn verkefni 2023

Heiti verkefnis : 

Samanburður á meiðslum í umferðarslysum fólks á rafhlaupahjólum eða reiðhjólum

Verkefnastjóri : 

 

Stutt lýsing á verkefninu:

 

Gögn úr slysaskrá Samgöngustofu um umferðarslys sem tengjast reiðhjólum og rafhlaupahjólum árin 2021-2022 verða notuð til að rannsaka meiðsli reiðhjólafólks og ökumanna rafhlaupahjóla. Notkun rafhlaupahjóla hefur stóraukist á tímabilinu og fjöldi skráðra slysa einnig þannig að bæði árin 2021 og 2022 voru töluvert fleiri slys skráð á rafhlaupahjólum en reiðhjólum í umferðinni á Íslandi. Umferðarslys reiðhjólafólks hafa hins vegar staðið frekar í stað undanfarin áratug. Fjölmargar rannsóknir hafa skoðað reiðhjólaslys en slys á rafhlaupahjólum hafa verið lítt rannsökuð. Í þessari rannsókn er ætlað að bæta úr því með því að rannsaka slys sem tengjast rafhlaupahjólum og bera þau saman við slys á reiðhjólum. Mikilvægt er að greina orsakir og aðstæður slysanna til að geta eflt forvarnir og umferðaröryggi rafhlaupahjóla og reiðhjóla á Íslandi. 

Tilgangur og markmið:

 

Tilgangur er að rannsaka mun á meiðslum í umferðarslysum fólks á reiðhjólum annars vegar og rafhlaupahjólum hins vegar með því að nota gögn úr slysaskrá Samgöngustofu, sem byggjast á umferðarslysum sem hafa verið tilkynnt til lögreglu. Markmiðið er að auka skilning á orsökum og mismun þessara slysa með það að leiðarljósi að bæta umferðaröryggi. Áherslan er á umferðarslys sem tengjast rafhlaupahjólum og umferðarslys sem tengjast reiðhjólum eru notuð til samanburðar. Það er ennþá mikill skortur á rannsóknum á umferðarslysum og meiðslum sem tengjast rafhlaupahjólum. Unnin var skýrsla af VSÓ árið 2021 þar sem fjallað var um umferðaröryggi á rafskútum (rafhlaupahjól) og farið vel yfir bakgrunn þessara ökutækja, eðli þeirra og gerðir. Þar var rætt um slys en aðeins lítillega minnst á íslensk gögn og umfjöllunin beindist aðallega að erlendum rannsóknum og ekki var gerð greining á gögnum úr slysaskrá Samgöngustofu. Því er mikilvægt að skoða nú þau gögn sem hafa myndast á undanförnum tveimur árum hjá Samgöngustofu til þess unnt verði að leggja fram tillögur byggðar á íslenskri reynslu.