Almenn verkefni 2021

Heiti verkefnis : 

Stauraundirstöður fyrir brýr

Verkefnastjóri : 

 

Stutt lýsing á verkefninu:

 

Brýr eru grundaðar á staurum þegar djúpt er á burðarhæfan botn. Þessar aðstæður er að finna um allt Ísland. Ef brúin er ekki grunduð örugglega þá getur hún hrunið með hörmulegum afleiðingum

Í þessu verkefni er sjónum beint að þeim aðferðum sem beitt er í hönnun stauraundirstaða fyrir brýr í sandi eða sendnum jarðvegi sem eru grundaðar á viðnámsstaurum. Slíkar undirstöður geta verið nokkuð efnismiklar og því til mikils að vinna ef unnt er að beita hönnunaraðferðum sem greina styrk undirstöðunnar með lýsandi en þó öruggum hætti, og koma þannig í veg fyrir yfirhönnun og óþarfa efnisnotkun.

Verkefnið ber saman undirstöðu sem hönnuð er skv. þeim aðferðum sem almennt hefur verið beitt fyrir stauraundirstöður í sandi eða sendnum jarðvegi á Íslandi undanfarin ár, og undirstöðu sem hönnuð er með nýlegri aðferð sem byggir á dýnamískri álagsprófun staura (PDA próf) og/eða tekur tillit til tímaáhrifa á burðarþol staura. Einnig eru skilgreindar þær jarðvegsprófanir sem gera þarf til að beita síðarnefndu aðferðunum en EFLA verkfræðistofa hefur reynslu af beitingu þeirra í Noregi og á Íslandi, en þó ekki fyrir Vegagerðina. Samanburðurinn er gerður á kostnaði og kolefnisspori undirstaðanna.

Tilgangur og markmið:

 

Verkefninu er ætlað að leggja mat á hve mikinn ávinning má hafa af innleiðingu nýrrar aðferðar við hönnun stauraundirstaða fyrir brýr í sandi eða sendnum jarðvegi. Aðferðin er kynnt og gerð grein fyrir þeim jarðvegsrannsóknum sem eru nauðsynleg forsenda fyrir beitingu hennar. Niðurstöður verkefnisins verða settar fram sem hlutfallslegur samanburður á kostnaði og kolefnisspori undirstaða sem hannaðar eru með þessari nýju aðferð annars vegar og aðferðum sem algengast er að beitt sé nú um stundir hérlendis hins vegar. Þennan mun og mögulegan sparnað má heimfæra á brýr sem fyrirhugaðar eru og líkur standa til að grundaðar muni verða á staurum. Markmiðið er þannig að benda á leið til að auka sjálfbærni í brúarhönnun í íslenska þjóðvegakerfinu.

Verkefnið fellur að markmiðum Rannsóknarsjóðs Vegagerðarinnar með því að beina sjónum að hönnunaraðferð sem eykur sjálfbærni í brúarhönnun og styður þannig beint við hlutverk Vegagerðarinnar um sjálfbærar samgöngur og þróun þeirra í samræmi við markmið. Auk þess tengist verkefnið beint inn á vinnu að Aðgerð C.3 Loftslagsáhrif byggingariðnaðarins og jafnframt inn á Aðgerð G.8 Sjálfbær opinber innkaup úr Aðgerðaáætlun í loftslagsmálum. Einnig hefur verkefnið tengingu við Heimsmarkmið SÞ um Sjálfbæra þróun, einkum undirmarkmið 9.4, 9.5 og 12.2.

Verkefninu er einnig ætlað að nýtast sem hluti af framlagi Íslands í NVF samstarfið, en þar veitir Ísland brúarnefnd forstöðu árin 2020-2024. Vistferilsgreiningar brúa eru eitt meginþemað í áherslum brúarnefndarinnar fyrir árið 2021, en þær eru á sviði loftslagsmála fyrir það starfsár.