Almenn verkefni 2022

Heiti verkefnis : 

Ferðamátavallikan

Verkefnastjóri : 

 

Stutt lýsing á verkefninu:

 

Nýlega skilaði starfshópur um Sundabraut ráðherra niðurstöðum úr kostnaðar- og ábatamati sem sýnir mikinn samfélagslegan ábata. Í skilagrein starfshópsins er tekið undir ábendingar Hagfræðistofnunar um að það vanti betri forsendur fyrir nokkra grunnþætti sem liggja til grundvallar mati á ábata notenda, eins og tímavirði íbúa á svæðinu, forsendur fyrir ferðamátavali í samgöngulíkani, tölfræðilegt mat á verðmæti mannslífa í tengslum við mat á ábata vegna umferðarslysa svo og mat á verðmæti umhverfis. Í kostnaðar- og ábatamati fyrir Sundabraut og Borgarlínu er tímavirði notenda langtum stærsti áhrifaþáttur ábata notenda. Stærðargráða ábatans af tímavirði veltur á magni umferðar og umferðarspánni í Samgöngulíkani höfuðborgarsvæðisins. Samgöngulíkanið inniheldur m.a. metna stuðla úr norsku ferðamátavallíkani og tímavirði sem byggt er á dönskum greiðsluvilja. Þannig inniheldur það bæði smekk og gildismat sem ekki er byggt á íslenskum samgönguinnviðum eða smekk notenda og samfélagsgerð. Ofmat á undirliggjandi tímavirði leiðir til þess að Samgöngulíkanið spáir hlutfallslega of mikilli notkun á ferðmátum sem tekur stuttan tíma að ferðast með og öfugt. Erfiðara er að fullyrða hver áhrif þess eru að byggja á vali norskra notenda án þess að staðfesta það með rannsókn á vali íslenskra notenda. Bjöguð umferðarspá leiðir til bjagaðs mats á ábata notenda í kostnaðar- og ábatamati.

Verkefnið er fyrsta skrefið í því að hægt verði að meta ferðamátavallíkan, fyrir íslenskar aðstæður, sem byggir á hendingarkenndum nytjaföllum og strjálum vallíkönum. Líkanið mun nýtast í Samgöngulíkani höfuðborgarsvæðisins.  

Tilgangur og markmið:

 

Tilgangurinn með verkefninu er að leggja í nauðsynlega undirbúningsvinnu til þess að hægt sé að hanna ferðamátavallíkan sem byggir á hagrænum nytjaföllum. Skoða á fremstu erlendar vísindarannsóknir sem lúta að ferðamátavali notenda samgöngumannvirkja. Kortlagt verður hvað rannsóknirnar eiga sameiginlegt og hvað gæti þurft að aðlaga að íslenskum aðstæðum. Sérstaklega verður horft til rannsókna þar sem vegtollar koma við sögu. Norska líkanið sem liggur til grundvallar Samgöngulíkani höfuðborgarsvæðisins verður yfirfarið til að tryggja að nýta megi vinnu þessa verkefnis í samgöngulíkaninu. Einnig verður ferðavenjukönnun sem byggir á svörum íbúa höfuðborgarsvæðisins rýnd til að tryggja að allir þættir sem kunna að hafa áhrif á val notenda á ferðmátum muni koma fram í ferðamátavalslíkani.

Markmiðið með að hanna ferðamátavallíkan fyrir íslenskar aðstæður er að hægt sé að spá áreiðanlega fyrir um breytingar á notkun einstakra ferðamáta, eins og almenningssamgangna og notkun einkabíls, við það að gerðar séu breytingar á samgönguinnviðum.

Verkefnið er liður í stærra rannsóknarverkefni sem snýr að því að gera grunnrannsóknir á þáttum sem hafa áhrif á ábata notenda í kostnaðar- og ábatamati samgönguverkefna. Að líkana ferðamátaval er nátengt því að meta fórnarkostnað ferðatíma, enda er tímavirði einn af áhrifaþáttum þess hvernig notendur velja á milli ferðamáta og valinn ferðamáti hefur áhrif á ferðatíma. Því er ákaflega gagnlegt og jafnvel nauðsynlegt að unnið sé að ferðamátavallíkani og mati á tímavirði saman.