Almenn verkefni 2022

Heiti verkefnis : 

Hönnunarleiðbeiningar fyrir umferðarljósastýringar

Verkefnastjóri : 

 

Stutt lýsing á verkefninu:

 

Gerð verða drög að hönnunarleiðbeiningum fyrir umferðarljósastýringar. Tekin verða saman helstu atriði sem hafa ber í huga við hönnun umferðarljósastýringar og farið í gegnum ferlið skref fyrir skref. Hagnýt nálgun verður tekin og markmið verkefnisins verður að auka skilning lesenda á helstu undirstöðuatriðum ljósastýringa, til dæmis:

  • Hvaða áhrif geómetrísk hönnun hefur á rýmingartíma og þar með afkastagetu gatnamóta?
  • Skilgreiningar ljósahópa og nafnakerfi
  • Ljósafasar, fasaskiptingar og lógík
  • Útreikningar rýmingartíma og milligræntíma fyrir mismunandi ferðamáta og samspil þeirra á milli
  • Umferðarstýrð ljós eða fastlotukerfi?
  • Skynjarar og notkun þeirra
  • Forgangur strætó og neyðarbíla
  • Samtenging ljósa, grænbylgja

Skortur er á íslenskum staðli og íslensku efni almennt um hvernig ljósastýringar eru hugsaðar. Þekkingin er á fárra höndum og erfitt fyrir nýtt fólk að koma sér inn í fagið. Nauðsynlegt er að festa í sessi þessa undirstöðuþekkingu svo hönnuðir, Vegagerð og sveitarfélög geti einbeitt sér að hermun og bestun; að ná sem mestum afköstum úr því kerfi sem fyrir er.

Tilgangur og markmið:

 

Í takt við áherslur rannsóknasjóðs Vegagerðar þetta árið mun afurð verkefnisins, hönnunarleiðbeiningar fyrir umferðarljósastýringar, styrkja þá undirstöðuþekkingu sem hönnuðir og eigendur kerfisins þurfa að hafa til að snjallvæða vegakerfið.

Leiðbeiningarnar munu ekki einungis nýtast þeim sem vinna í umferðartækni og hermunarlíkönum. Leiðbeiningarnar munu einnig hjálpa veghönnuðum að átta sig á samspili geómetríu og rýmingartíma; beygjuradíusar, breidd miðeyja og akreina, fjarlægð hjólastíga og gönguþverana frá gatnamótum, hægri beygju framhjáhlaup eða ekki. Þetta eru allt breytur sem hafa áhrif. Vel hönnuð ljósastýrð gatnamót ættu að vera hönnuð með ljósastýringu í huga frá upphafi – með upplifun allra vegfarenda í huga.