Almenn verkefni 2022

Heiti verkefnis : 

Strandlínubreytingar á Suðausturlandi frá 1903 til 2021.

Verkefnastjóri : 

 

Stutt lýsing á verkefninu:

 

Suðausturströnd landsins einkennist af sandfjörum sem mótast af jökulám og öðru vatnafari, strandstraumi, brimi og sandfoki.

Breytingarnar á ströndinni eru annars vegar hægfara, til dæmis vegna stöðugs framburðar jökulánna, og hins vegar hraðar vegna atburða á borð við jökulhlaup. Líklegt er að meiri breytingar verði á næstu áratugum, að hluta til vegna loftslagsbreytinga og áhrifa þeirra á vatnafar og jökla á Suðausturlandi. Því er mikilvægt að átta sig á því orsakasamhengi í náttúrufari, sem annars vegar veldur breytingum, og hins vegar býr til jafnvægi eða stöðugleika í stöðu strandlínu landsins.

Breytingar á strandlínunni frá Dyrhólaey að Vestrahorni verða kortlagðar út frá sögulegum frumteikningum, útgefnum kortum, loftmyndum og gervitunglagögnum. Til hliðsjónar verða ýmis önnur gögn, til að mynda hafsbotnsgögn, upplýsingar um strandstrauma, sjávarföll og ýmsa atburði sem hafa haft áhrif á ströndina.

Landfræðilegur gagnagrunnur, með upplýsingum um heildarstrandlínuna fyrir a.m.k. fimm viðmiðunarár, verður útbúinn. Strandlínan verður jafnframt flokkuð eftir gerð skv. þekktum stöðlum. Nokkur svæði, sem eru áhugaverð vegna breytinga eða þykja viðkvæm á einhvern hátt, verða skoðuð nánar og kortlögð oftar.

Verkefnið mun sýna hversu miklar breytingar hafa átt sér stað á strandlínu Suðausturlands á tímabilinu, og gefa vísbendingar um orsakir og líklega þróun mála.

Tilgangur og markmið:

 

Markmið verkefnisins er að kanna breytingar sem orðið hafa á strandlínu Suðausturlands frá byrjun tuttugustu aldar til okkar tíma:

Hvaða hlutar strandlínunnar hafa breyst, hve miklar hafa breytingarnar verið og hverjar eru líklegustu skýringar þeirra?

Hafa hlutar strandlínunnar haldist stöðugir yfir tímabilið?

Eru greinanlegar sveiflur í stöðu strandlínu á ákveðnu svæði, t.d. vegna reglubundinna breytinga á vatnafari?

Hefur gerð strandlínunnar breyst með einhverjum hætti? Miðað verður við alþjóðlegar flokkanir á strandlínum.

Svör við ofangreindum spurningum gefa vísbendingar um hvaða breytinga megi búast við á næstu áratugum, sem getur skipt máli fyrir Vegagerðina og þar með öryggi vegfarenda.