Almenn verkefni 2023

Heiti verkefnis : 

Vistvænni brýr Markmið fyrir Ísland

Verkefnastjóri : 

 

Stutt lýsing á verkefninu:

 

Brýr eru stór og mikil mannvirki sem eru byggð til þess að endast lengi og kolefnislosun frá brúargerð er því umtalsverður hluti heildarlosunar á landsvísu. Þetta veigamikill hluti getur ekki verið undanskilinn markmiðum stjórnvalda um 55% samdrátt í losun árið 2030 m.v. losun árið 2005.

Nákvæmlega hversu stór þessi hluti er liggur ekki fyrir og þess vegna er rík þörf fyrir kortlagningu á stöðunni eins og hún er í dag. Svara þarf spurningunum hver er heildarhluti brúarmannvirkja í þjóðhagslegri kolefnislosun, hver er losun frá nýjum brúarmannvirkjum m.v. þær aðferðir sem nú er beitt og hvaða leiðir eru raunhæfar til að draga úr losuninni. Að þessum spurningum svöruðum er unnt að tölusetja markmið um samdrátt í losun frá brúargerð til þess að þessi hluti heildarlosunar á landsvísu geti fallið undir ofangreind markmið stjórnvalda.

Í þessu verkefni verður þessum spurningum svarað. Unnin verður greining á heildarlosun frá þeim brúarmannvirkjum sem þegar eru í rekstri í vegakerfinu. Þetta verður unnið út frá brúaskrá að undangengnu mati á losun frá fermeter brúargólfs. Það mat er annar hluti verkefnisins, þ.e. að svara því hver er losun frá brúargerð í dag og hvernig má nálga hana á flatareiningu nýtanlegs brúargólfs. Með þessari vinnu fæst jafnframt yfirlit yfir veigamestu þættina í losun frá brúarframkvæmdum, en gera má ráð fyrir að þeir séu steypuframleiðsla, steypustyrktarstál, stálvirki, slitlag, og jarðvinna, og að henni lokinni verður greint hvar tækifæri til að draga úr losun liggja.

Niðurstöður verða settar fram sem tillaga að markmiði um kolefnislosun frá brúargerð, sett fram sem tonn CO2eq/m2 nýtanlegs brúargólfs fyrir hverja gerð af brú. Þessa breytu er unnt að nota til að rýna hönnun á nýjum brúm og jafnframt til að halda utan um heildarmagn kolefnislosunar frá brúm á Íslandi framvegis.

Tilgangur og markmið:

 

Markmiðin með verkefninu eru:

·       Að skilgreina og beita aðferðafræði við mat á kolefnislosun frá brúargerð

·       Að meta heildarlosun frá þeim brúarmannvirkjum sem þegar eru í rekstri í vegakerfinu

·       Að skilgreina markmið um kolefnislosun frá brúargerð, sett fram sem tonn CO2eq/m2 nýtanlegs brúargólfs fyrir hverja brúargerð

·       Að benda á leiðir sem raunhæfar eru til að lækka þessa losun

Þetta markmið fellur með skýrum hætti að áherslum Rannsóknarsjóðs fyrir árið 2023 um lífsferilsgreiningar, og styður Vegagerðina í því hlutverki sínu að stuðla að sjálfbærari samgöngukerfum og þróun þeirra í samræmi við samfélagsleg markmið, svo sem markmið stjórnvalda um 55% samdrátt í losun árið 2030 m.v. losun árið 2005.

Einnig er rétt að benda hér sérstaklega á aðgerð 5.1.6 í Vegvísi að vistvænni mannvirkjagerð 2030, sem Vegagerðin tók þátt í að skrifa: Grunnviðmið fyrir kolefnisspor ólíkra mannvirkjaflokka skilgreind. Þetta verkefni svarar því samfélagslegu ákalli, sem gera má til Vegagerðarinnar sem langstærsta byggingar- og rekstraraðila brúa á Íslandi, um skilgreiningu á slíku grunnviðmiði fyrir brýr.

Um er að ræða samantekt og öflun á nýrri þekkingu sem nýtist samfélaginu með beinum hætti.

Með samstarfi við Vegagerðina í verkefninu er gert ráð fyrir að niðurstöður verkefnisins, þ.e. skilgreind og tölusett markmið um losun frá brúargerð, verði tekin til umfjöllunar og helst almennrar notkunar hjá þeim sem hanna, byggja og reka brýr á Íslandi í dag.