Almenn verkefni 2023

Heiti verkefnis : 

Rauntímavöktun á hreyfingum við vegstæði Siglufjarðarvegar um Almenninga með síritandi GNSS GPS staðsetningatækni

Verkefnastjóri : 

 

Stutt lýsing á verkefninu:

 

Sumarið 2022 voru settar upp níu síritandi GNSS stöðvar til vöktunar og rannsókna á skriðuhreyfingum á vegstæðinu við Almenninga á Tröllaskaga, en þar hefur reglulega orðið vart skemmda á vegstæði síðan vegurinn var lagður árið 1968. Hreyfingarnar eru mestar á um 5-6 km löngum kafla frá Hraunum að Almenningsnöf. Allnokkur vinna hefur farið fram á svæðinu á undanförnum áratugum til að kortleggja og rannsaka hreyfingarnar. Þrjú stór og nokkur minni berghlaup eru í Almenningum: Tjarnardalaberghlaupið (nyrst), Þúfnavallaberghlaupið og Hraunaberghlaupið syðst. Sameiginlegt með öllum þessum berghlaupum er að töluverð hreyfing er á efnismössum þeirra í dag. Eldri árlegar mælingar á hreyfingum með GNSS (GPS) staðsetningartækni hafa sýnt að hreyfingarnar eru mestar í Hrauna- og Tjarnardalaberghlaupunum, um 1 m á ári. Nýju síritandi stöðvarnar bæta mjög tímaupplausn á hreyfingum, og mældust þrjú greinileg færslutímabil haustið 2022, öll í kjölfar ákafrar úrkomu. Nú er unnið sjálfvirkt úr GNSS mælunum í rauntíma (á 5 mínútna fresti) og niðurstöður birtar á heimasíðu Jarðvísindastofnunar. Þó þykir heldur mikið suð í mælingunum. Markmið þessa verkefnis er tvíþætt: a) að bæta þær aðferðir sem beitt er við rauntímaúrvinnslu og minnka suð í mæliniðurstöðum; b) að koma mæliniðurstöðum sjálfvirkt inn í miðlægt vöktunarkerfi Vegagerðarinnar og skilgreina viðvörunarþröskulda. Verkefnið mun því styrkja vöktun og rannsóknir á svæðinu við Almenninga, og leggja mikilvægan grunn að sjálfvirku viðvörunarkerfi sem beita má á fleiri stöðum, hvort sem er innanlands eða erlendis.

Tilgangur og markmið:

 

Tilgangur verkefnisins er að bæta vöktunarkerfi á hreyfingum við vegstæði Siglufjarðarvegar um Almenninga á um 5-6 km löngum kafla frá Hraunum í Fljótum og norður að Almenningsnöf. Nýtt kerfi síritandi GNSS mælitækja verður notað til verksins. Annað meginmarkmið verkefnisins er að bæta úrvinnslu í RTKLIB úrvinnslukerfinu sem er nú í gangi. Hitt meginmarkmið verkefnisins er að koma niðurstöðum mælinga inn í GENETEC vöktunarkerfi Vegagerðarinnar í rauntíma. Einnig verður unnið í að skilgreina viðvörunarþröskulda, þ.e. hversu miklar eða hraðar hreyfingar þarf til að senda út viðvörun, með að nota þá sem viðmið atburði sem þegar hafa mælst á kerfinu.
 
Rannsóknarspurningar þessa verkefnis eru:
1. Hvernig er hægt að fá sem mesta nákvæmni í rauntímaúrvinnslu GNSS mæligagna í Almenningum?
2. Hvernig er hægt að koma niðurstöðum úr textaskrám úrvinnslukerfis inn í viðvörunarkerfi Vegagerðarinnar í rauntíma?
3. Hversu stórar hreyfingar yfir hversu langan tíma á að nota til að skilgreina viðvörunarþröskulda?