Almenn verkefni 2023

Heiti verkefnis : 

Skafrennings og snjólíkan byggt á fínriðnum veðurlíkönum

Verkefnastjóri : 

 

Stutt lýsing á verkefninu:

 

Skafrenningur veldur reglulega vandræðum í umferð og vetrarþjónustu. Erfiðara er að spá fyrir um skafrenning en veður almennt þar sem veðurspárnar sem stuðst er við hafa hvorki fullnægjandi upplýsingar um gerð snjóþekju né gefa neitt til kynna um skafrenning. Fyrir um 10 árum síðan útbjuggu Veðurstofan, Vegsýn og Vegagerðin í sameiningu frumgerð af skafrenningslíkani sem keyrt er ofan á Harmonie veðurlíkan Veðurstofunnar. Skafrenningslíkanið er keyrt daglega (á 6 klst. fresti) og gefur þá vísbendingu um líkur á skafrenningi.

Á þessum 10 árum hefur orðið mikil framþróun í hermun á snjóþekju og skafrenningi. Fram eru komin öflug snjólíkön sem hægt er að samþætta við þau veðurlíkön sem notuð eru á Íslandi. Í stað reynslulíkinga, beita þessi snjólíkön lögmálum eðlisfræðinnar til að reikna út skafrenning fyrir þéttriðið net spápunkta.

Ætlunin með verkefninu er að skoða betur snjólíkönin og leggja mat á það hversu vel þau henta við íslenskar aðstæður. Prófað verður að keyra a.m.k. eitt slíkt líkan fyrir þekkta skafrenningsatburði. Jafnframt verða gerðar nokkrar minniháttar breytingar á skafrenningslíkaninu sem notað hefur verið til þessa.

Niðurstaðan úr líkönunum tveimur verður borin saman og mat lagt á það hvort betri spágeta sé í nýju eðlisfræðilegu líkani en í eldra líkani. Eins hvort ástæða sé til þess að hefja reglulegar spár með nýju líkani eða hvort betrumbætt eldra líkan gefi fullnægjandi niðurstöðu.

Tilgangur og markmið:

 

Þrátt fyrir að skafrenningur sé algengur og valdi ítrekað vandræðum um land allt hefur lítið verið unnið í þróun á skafrenningsspám á Íslandi. Tilgangur verkefnisins er að meta gæði skafrenningslíkana og reyna að komast að því hvort hægt sé að gera betur í skafrenningsspám hérlendis. Til þess verða tvö mismunandi spálíkön metin og keyrð og annað þeirra uppfært að einhverju leiti. Lagt verður mat á það hversu vel líkönunum tekst að herma skafrenning og hvort æskilegt sé að taka þau í reglulega notkun.

Markmiðið er að við verkefnislok verði hægt að keyra öflugt skafrenningsspálíkan samhliða veðurspám, auk þess sem mat hefur verið lagt á gæði bæði nýrra og eldri skafrenningslíkana. Þó verður að hafa í huga að tiltölulega erfitt er að meta spágæði líkananna þar sem skafrenningur er hvergi mældur á Íslandi.