Almenn verkefni 2024

Heiti verkefnis : 

Kortlagning á úthlaupslengd og aldursgreining berghlaupa í Almenningum við austanverðan Skagafjörð

Verkefnastjóri : 

 

Stutt lýsing á verkefninu:

 

Allt frá því að Siglufjarðarvegur um Almenninga var lagður árið 1968 hafa orðið töluverðar skemmdir vegna sigs á og í kringum vegstæði hans, á um 5-6 km löngum kafla frá Hraunum og að Almenningsnöf. Umfangsmikil kortlagning og rannsóknir hafa verið gerðar á svæðinu á undanförnum árum og áratugum til að finna orsakir sigsins. Þrjú stór og nokkur minni berghlaup hafa verið kortlögð. Nyrst  er Tjarnardalaberghlaupið, svo Þúfnavallaberghlaupið og Hraunaberghlaupið syðst. Sameiginlegt með öllum þessum berghlaupum er að töluverð hreyfing er á efnismössum þeirra í dag, bæði við vegstæðið og eins utan þess. Mestar eru hreyfingarnar í Hrauna- og Tjarnardalaberghlaupunum þar sem hreyfingar nálgast um 1 m á ári við vegstæðið. Út frá greiningu á sögu sighreyfinga í berghlaupunum er ljóst að það er beint samband milli veðurfars, þ.e.a.s. úrkomu og leysinga, og sighreyfinga. Hreyfing berghlaupanna á og við vegstæði Siglufjarðarvegar er nokkuð vel þekkt en frá árinu 1977 hafa farið fram punktmælingar á nokkrum stöðum við vegstæðið. Árið 2022 var komið upp 9 GNSS stöðvum við vegstæði Siglufjarðarvegar í Almenningum til að fylgjast með í fyrsta sinn færslu í rauntíma og einnig var settur upp úrkomumælir á svæðinu. Niðurstöður úr þessum athugunum gera okkur í fyrsta sinn mögulegt að skoða úrkomuþröskulda. Í dag er þekking okkar á legu og útbreiðslu lausra jarðmyndanna á svæðinu nokkuð góð. Á síðasta ári var framkvæmd kortlagning á lausum setlögum í frambrún berghlaupanna og þau sýni greind. Niðurstöður þeirra mælinga er að vænta nú á vormánuðum. Eitt af því sem mikil óvissa er um í dag er úthlaupslengd berghlaupanna. Á undanförnum árum hafa neðansjávarskriður og berghlaup sem fallið hafa í sjó verið kortlögð hér við land t.d. á austurlandi. Verkefnið leitast við að bæta úr þeim þekkingarskorti og er stefnt að því að kortleggja úthlaupslengdir Tjarnadalaberghlaupsins og einnig Hraunaberghlaupsins. Einnig er fyrirhugað að taka sýni til geimgeislaaldursgreininga á 6 stöðum á svæðinu.

Tilgangur og markmið:

 

Tilgangur verkefnisins er tvíþættur. Annars vegar að kortleggja úthlaupslengd fyrir utan núverandi strönd tveggja berghlaupa á svæðinu. Á undanförnum árum hafa neðansjávarskriður og berghlaup sem fallið hafa í sjó verið kortlagðar á með fjölgeisla dýptarmælingum á nokkrum stöðum umhverfis landið. Þekking okkar á hversu langt slík berghlaup fara þegar þau falla í sjó í samanburði við berghlaup á þurru landi er illa þekkt hér á landi. Markmið verkefnisins er að kortleggja úthlaupslengd og dreifingu berghlaupanna fyrir utan núverandi strönd og útbúa landlíkan af svæðinu.

Hins vegar verða tekin sex sýni úr stórgrýti á yfirborði berghlaupanna, þrjú frá Tjarnardalaberghlaupinu og þrjú frá Hraunaberghlaupinu til að aldursgreina berghlaupin. Aðferðin sem notuð verður nefnist geimgeisla aldursgreining eða "Cosmogenic nuclear dating" og er notast við klór36 samsætuna (Clorine 36 eða 36CL). Slíkar aldursgreiningar hafa ekki verið framkvæmdar á berghlaupum hérlendis áður. Verkefnið verður unnið í náinni samvinnu við spænskan rannsóknarhóp sem undirritaður hefur unnið náið með á undanförnum árum hefur framkvæmt slíkar mælingar hér á landi með góðum árangri. Markmið verkefnisins er að aldursgreina í fyrsta sinn berghlaup með beinum aldursgreiningum.