Almenn verkefni 2024

Heiti verkefnis : 

Mat á rúmmálsbreytingum strandarinnar frá Reynisfjalli að Kúðafljóti, á Suðurlandi, á 20 og 21. öld.

Verkefnastjóri : 

 

Stutt lýsing á verkefninu:

 

Rúmmálsbreytingar á ströndinni milli Reynisfjalls og Kúðafljóts verða reiknaðar með því að nota QGIS til að setja upp samsíða snið til magntöku á 200 metra fresti við ströndina, en með því mun fást mjög nákvæmar niðurstöður um rúmmálsbreytingar. Notast verður við gögn um strandlínubreytingar frá upphafi 20 aldar og fram til ársins 2023 til að finna breytingar á legu  og síðan verður notast við sjókort og aðrar dýptarmælingar sem gerðar hafa verið af Vegagerðinni og Sjómælingum til að útbúa af hverju samsíða sniði

Á strandlínunni milli Reynisfjalls og Kúðafljóts hafa orðið miklar breytingar síðan í gosinu í Kötlu 1918, þegar jökulhlaup flutti mikið efni til sjávar sem varð til þess að land sunnan við Hjörleifshöfða byggðist út og myndaði Kötlutanga. Á áratugunum eftir hlaupið vann alda á tanganum og á meðan fór fjaran sunnan við Víkurhamra að byggjast upp. Sú þróun hélst til um 1970 þegar fjaran sunnan við Víkurhamra fór að hopa og var landbrot farið að ógna Vík í kringum 1990. Fljótlega var farið að hugsa að sjávarvörnum og var á endanum sú leið valin að reisa tvo sandfangara til að freista þess að sandfjaran byggði sig upp og stöðvaði þannig landbrot. Sandfangararnir hafa sýnt sitt gildi og hefur landbrot fyrir framan Vík svo gott sem stöðvast, en landbrotið fyrir austan byggðina hefur haldið áfram.

Töluvert hefur verið ritað um þessar breytingar, en gögn um breytingarnar hafa iðulega skort, sérstaklega snemma á 20. öld. Nú er búið er að kortleggja strandlínubreytingar út frá loftmyndum og kortum, og þau gögn, ásamt dýptarmælingum og eldri sjókortum, gefa nú tækifæri í fyrsta skipti að reikna út heildar rúmmál þess efnis sem bættist við í gosinu 1918, þess rúmmáls sem hefur færst til austur og vestur frá Kötlutanga, og breytingar á rúmmáli við strandlínuna alla á svæðinu. Sérstök áhersla verður lögð á strandlínuna sunnan við Vík, en einnig fjallað um stutt- og langtímabreytingar á strandlínunni milli Reynisfjalls og Kúðafljóts.

Tilgangur og markmið:

 

Markmið verkefnisins er að reikna út rúmmál strandlínunnar á milli Reynisfjalls og Kúðafljóts á nokkrum mismunandi tímabilum frá því snemma á 20. öld til dagsins í dag. Með þeim útreikningum má síðan finna út hvort að strandlínan hafi verið að færast fram eða hopa, og þá hversu mikið á hverju tímabili. Rúmmálsútreikningarnir munu einnig gefa innsýn í hegðun strandlínunnar og hvernig hún bregst við ákveðnum stærri atburðum, t.d. jökulhlaupum og aftaka öldufari. Undirtilgangur þessa verkefnis er einnig að reyna að reikna út magn efnis sem settist fyrir á strandlínunni í Kötluhlaupinu 1918.

Niðurstöður verkefnisins munu m.a. geta nýst við áframhaldandi rannsóknir við ströndina, geta sagt til um fýsileika nýrra skipulagssvæða og hafnastæða á ákveðnum svæðum, hjálpa til við ákvörðun varðandi varnarmannvirki gegn ágangi sjávars fyrir framan Vík, hjálpa til við mat á virkni núverandi sandfangara fyrir framan Vík, nýtast til að segja til um hættuna fyrir þjóðveg 1 á næstu árum en landbrot við fjöruna rétt austan við Vík er farið að ógna vegstæðinu. Þá mun uppsetning og úrvinnsla á niðurstöðum verkefnisins vera þannig að auðvelt verði að vinna úr framtíðar dýptar mælingum sem Vegagerðinn gæti gert á svæðinu, og fengjust þar með niðurstöður úr nýjum mælingum mun fyrr en ella.