Almenn verkefni 2024

Heiti verkefnis : 

Kortlagning á jarðfræði og jarðvá hafsbotnsins í Patreksfirði og Tálknafirði

Verkefnastjóri : 

 

Stutt lýsing á verkefninu:

 

Verkefnið snýr að jarðfræði- og jarðvárkortlagningu strandsvæða í Patreksfirði og Tálknafirði á Vestfjörðum. Firðirnir eiga það sameiginlegt að þar má sjá greinileg ummerki um neðansjávarskriður sem hugsanleg jarðvá stafar af og eitt af markmiðum verkefnisins er að varpa ljósi stærð og umfang skriðanna. Ásamt því að kortleggja og bæta þekkingu okkar á botngerð og strandgerð fjarðanna. Þessar grundvallar-rannsóknir og kortlagning á hafsbotni fjarðanna ásamt samtúlkun á fyrirliggjandi gögnum nýtast Vegagerðinni og eru mikilvægar grunnrannsóknir við mat á jarðvá og umhverfisáhrifum sem nýtast við skipulagningu, staðarval og framkvæmd vega-, hafnar- og gangagerðar í eða við sjó. Sem hluti af þessu verkefni mun ÍSOR og Vegagerðin auka samstarf sitt varðandi miðlun upplýsinga um hafsbotnsrannsóknir og tilvist rannsóknagagna á strandsvæðum umhverfis landið.

Tilgangur og markmið:

 

Meginmarkmið verkefnisins snýr að jarðfræðikortlagningu strandsvæða í Patreksfirði og Tálknafirði á Vestfjörðum (Mynd 1 í viðhengi). Tilgangur verkefnisins er fólginn í útgáfu á þremur mismunandi kortum af þessum svæðum þ.e. jarðfræði- og jarðvárkorti, botngerðarkorti og strandgerðarkorti. Þessir firðir hafa allir verið fjölgeisladýptarmældir af Sjómælingarsviði (LHG) og túlkun þeirra mælinga gerir okkur kleift að kortleggja jarðfræði og jarðvá hafsbotnsins með nákvæmum hætti og bera saman við jarðfræði sem sjá má á landi. Einnig eru til botngerðarmælingar úr þessum fjörðum sem er lykillinn að úrvinnslu botngerðarkorts ásamt öðrum mælingum (s.s. botnhörkumælingum). Með notkun loftmynda á landi er hægt að túlka og kortleggja strandgerð fjarðanna. Þessar grundvallar athuganir og kortlagning fjarðanna ásamt samtúlkun á fyrirliggjandi gögnum nýtast Vegagerðinni við mat á jarðvá og umhverfisáhrifum. Auk þess eru þetta mikilvægar grunnrannsóknir við undirbúning við skipulagningu, staðarval og framkvæmd vega-, hafnar- og gangagerðar í eða við sjó.

Þessir firðir eiga það sameiginlegt að þar má sjá greinileg ummerki um neðansjávarskriður sem hugsanleg jarðvá stafar af (Mynd 2 í viðhengi). Vel þekkt er að skriður sem þessar geta komið af stað flóðbylgjum (tsunami) sem ferðast geta langar vegalengdir valdið miklu tjóni og hættu fyrir sjófarendur, nærliggjandi sveitarfélög, mannvirki og samgöngukerfi fjarðanna. Þar sem neðansjávarskriður hafa fallið í fjörðum er ákveðin vísbending um óstöðugar hlíðar og er hugsanlegt að slíkir atburðir endurtaki sig, með mögulegri hættu á flóðbylgju. Litlar rannsóknir hafa átt sér stað á neðansjávarskriðum umhverfis Ísland en víða á landi hafa skriður og skriðusvæði verið nokkuð vel rannsökuð og kortlögð. Mikilvægt er að auka skilning okkar á umhverfi og jarðfræði fjarðanna og þeim hættum sem þar kunna leynast til geta tekið skynsamar ákvarðanir við umhverfismat, þróun byggða og skipulagningu og uppbyggingu á samgöngukerfinu.