Almenn verkefni 2024

Heiti verkefnis : 

Fornar strandlínur á Íslandi

Verkefnastjóri : 

 

Stutt lýsing á verkefninu:

 

Fornar strandlínur gefa mikilvægar upplýsingar um hörfun jökla í lok ísaldar, ásamt sjávarstöðubreytingum í kjölfar þessa. Efnistaka í fornum strandmyndunum hefur verið umfangsmikil síðustu 100 ár, enda er efnið í þeim auðsótt og afar hentugt byggingarefni í margskonar mannvirkjagerð.  Fornar strandlínur, ekki frekar en aðrar myndanir lausra jarðlaga, hafa ekki verið kortlagðar fyrir allt landið og njóta ekki sérstakrar verndar samkvæmt náttúruverndarlögum. Margar þessar myndanir lausra jarðlaga fela hins vegar oft í sér upplýsingar um mikilvægan kafla í jarðsögu Íslands og Norður Atlantshafsins, sem ekki má glata.

Verkefnið er að kortleggja fornar strandlínur á Íslandi sem mynduðust á síðjökultíma og í upphafi nútíma. Heildstæð og samræmd kortalagning yfir útbreiðslu fornra strandlína á öllu landinu, ásamt mati á ástandi þeirra og verndargildi, mun nýtast í upplýstri ákvörðun um vernd eða nýtingu þessara jarðmyndana. Verkefnið mun gagnast Vegagerðinni við áætlanagerðir um efnistökustaði. Síðast en ekki síst mun verkefnið gefa upplýsingar um áhrif sjávarstöðubreytinga á strandsvæði landsins sem tengja má við lofstlagsvá okkar tíma.

Tilgangur og markmið:

 

Tilgangur verkefnisins er að kortleggja fornar strandlínur á Íslandi, meta ástand þeirra og verndargildi samkvæmt viðmiðum náttúruverndarlaga. Með því fæst yfirlit um útbreiðslu þeirra og hvaða strandlínur er þörf á að vernda til framtíðar vegna mikilvægi þeirra fyrir jarðvísindin. Slíkt yfirlit er ekki til í dag. Markmiðið er að til verði heildstætt kort með samræmdum upplýsingum yfir fornar strandlínur á Íslandi, ástand þeirra og verndarþörf. Markmiðið er einnig að vekja athygli stjórnsýslu, sveitarfélaga og ýmissa framkvæmdaraðila á gildi þessara setmyndana og koma í veg fyrir rask á strandlínum sem eru mikilvægar fyrir jarðvísindin og jarðsögu Íslands. Í lok verkefnisins verða landupplýsingagögn yfir fornar strandlínur gerð aðgengileg í kortasjá og til niðurhals hjá Náttúrufræðistofnun, þannig að þau geti nýst öllum sem hafa áhuga eða not fyrir þessar upplýsingar.