Almenn verkefni 2024

Heiti verkefnis : 

Vistvænni brýr Markmið fyrir Ísland

Verkefnastjóri : 

 

Stutt lýsing á verkefninu:

 

Brýr eru stór og mikil mannvirki sem eru byggð til þess að endast lengi og kolefnislosun frá brúargerð er því umtalsverður hluti heildarlosunar á landsvísu. Þetta veigamikill hluti getur ekki verið undanskilinn markmiðum stjórnvalda um 55% samdrátt í losun árið 2030 m.v. losun árið 2005.

Þetta verkefni er framhald af verkefni með sömu yfirskrift sem Rannsóknarsjóður Vegagerðarinnar styrkti 2023 og unnið er 2023-2024. Í vinnu 2023-2024 hefur verið unnið yfirlit fyrir innbyggt kolefni sem liggur í íslenskum brúm, og stillt upp tölusettum markmiðum fyrir þann samdrátt sem þarf að nást til að brýr haldi í við þjóðhagsleg markmið um samdrátt í kolefnislosun.

Verkefni þessa árs mun skilgreina leiðir til að ná þessum markmiðum, og hvernig unnt er að nota kolefnisspor sem breytu í rýni á brúarhönnun, með svipuðu sniði og nú tíðkast fyrir umferðaröryggisrýni vega. Unnið er með markmið sem stillt er upp sem kolefnislosun á flatareiningu nýtanlegs brúargólfs. Vinna síðasta árs hefur skilað yfirliti yfir veigamestu þættina í losun frá brúarframkvæmdum, en þeir eru steypuframleiðsla, steypustyrktarstál, stálvirki, slitlag, og jarðvinna, og í verkefni þessa árs verður greint hvar tækifæri til að draga úr losun liggja. Með skilgreiningu á því hvaðan samdráttur þarf að koma er raunhæfi markmiðasetningarinnar rýnt.

Ferlið verður notað til að rýna hönnun á nýjum brúm og jafnframt til að halda utan um heildarmagn kolefnislosunar frá brúm á Íslandi framvegis.

Tilgangur og markmið:

 

Markmiðin með verkefninu eru:

  • Að beita aðferðafræði við mat á kolefnislosun frá brúargerð
  • Að benda á leiðir sem raunhæfar eru til að lækka kolefnislosun frá brúargerð, sett fram sem tonn CO2eq/m2 nýtanlegs brúargólfs fyrir hverja brúargerð
  • Að stuðla að innleiðingu ferlis sem nýtir kolefnislosun sem eina veigamestu breytuna í rýni á brúarhönnun og beitt verður með svipuðum hætti og nú er tíðkað fyrir umferðaröryggisrýni veghönnunar

Þessi markmið fellur með skýrum hætti að áherslum Rannsóknarsjóðs fyrir árið 2024 um lífsferilsgreiningar, og styður Vegagerðina í því hlutverki sínu að stuðla að sjálfbærari samgöngukerfum og þróun þeirra í samræmi við samfélagsleg markmið, svo sem markmið stjórnvalda um 55% samdrátt í losun árið 2030 m.v. losun árið 2005.

Einnig er rétt að benda hér sérstaklega á eftirtaldar aðgerðir í Vegvísi að vistvænni mannvirkjagerð 2030 sem Vegagerðin tók þátt í að skrifa:

  • 5.1.1 Losun framkvæmda Vegagerðarinnar með uppsprettugreiningu
  • 5.1.3 Skilyrði fyrir útreikninga á kolefnisspori opinberra verkefna
  • 5.1.5 Samræmd aðferðafræði við gerð lífsferilsgreininga bygginga. Þetta markmið á jafnvel við um brúarmannvirki
  • 5.1.6 Grunnviðmið fyrir kolefnisspor ólíkra mannvirkjaflokka skilgreind. Þetta verkefni svarar því samfélagslegu ákalli, sem gera má til Vegagerðarinnar sem langstærsta byggingar- og rekstraraðila brúa á Íslandi, um notkun á slíku grunnviðmiði fyrir brýr.

Um er að ræða samantekt og öflun á nýrri þekkingu sem nýtist samfélaginu með beinum hætti.

Með samstarfi við Vegagerðina í verkefninu er gert ráð fyrir að niðurstöður verkefnisins, þ.e. skilgreind og tölusett markmið um losun frá brúargerð, sem og skilgreining leiða til að ná þeim, verði tekin til almennrar notkunar hjá þeim sem hanna, byggja og reka brýr á Íslandi í dag.