Almenn verkefni 2024

Heiti verkefnis : 

Jarðlagalíkan af höfuðborgarsvæðinu holusjármælingar í gömlum borholum

Verkefnastjóri : 

 

Stutt lýsing á verkefninu:

 

Verkefninu er ætlað að taka saman fyrirliggjandi upplýsingar um efstu 200-300 m berggrunns á höfuðborgarsvæðinu með því að nýta þær fjölmörgu holur sem boraðar hafa verið í gegnum tíðina. Að lokinni þeirri samantekt verður tekið saman mat á upplýsingaþéttleika og aðgengi að holum. Þá mun nýrra gagna verða aflað með holusjármælingum úr völdum borholum á svæðum þar sem upplýsingaskortur ríkir og aðgangur að borholum er raunhæfur. Þessum gögnum verður safnað saman í þrívíddarforritinu Leapfrog Energy og það notað til að útbúa þrívíddarlíkan af efstu jarðlögum á höfuðborgarsvæðinu. Slíkt þrívítt líkan getur aukið skilning á legu jarðmyndana, sprungna, misgengja og bergganga og með því auðveldað undirbúning verkefna og ákvarðanatöku við gerð mannvirkja. Þessi gögn er hægt að gera aðgengileg öllum með myndrænni þrívíðri framsetningu. Jafnóðum og ný gögn verða til er hægt að uppfæra líkanið og fá þannig sífellt betri mynd af aðstæðum í berggrunninum. Það er því líklegt að slíkt líkan gæti orðið að verulegu gagni fyrir Vegagerðina um ókomna framtíð.

Tilgangur og markmið:

 

Unnið verður þrívítt jarðlagalíkan af efstu 200-300 m bergrunnsins á höfuðborgarsvæðinu til að auka þekkingu á eiginleikum, þykkt og útbreiðslu jarðlaga og höggunnar á svæðinu. Inn í líkanið verða sett rannsóknargögn sem aðgengileg eru í útgefnum skýrslum. ÍSOR hefur unnið að þróun verkferla til að byggja upp þrívíddarlíkön af jarðlagaskipan svæða t.d. í tengslum við jarðgangagerð (mynd 1). Þetta verkefni er hugsað sem hluti af þeirri þróun og einnig sem samantekt og uppbygging á þekkingu. Framsetning gagna í þrívíðu umhverfi auðveldar ákvarðanatöku og eykur skilning á legu jarðmyndana, sprungna, misgengja og bergganga. Þannig má samtúlka öll tiltæk jarðfræðileg gögn af hverju svæði og gera þau aðgengileg. Með nýjum gögnum geta svo þrívíddarlíkön tekið stöðugum breytingum.
Allar aðgengilegar upplýsingar um jarðlagaskipan í þeim holum sem boraðar hafa verið á höfuðborgarsvæðinu (mynd 2) verða settar í líkanið. Við teljum þó nauðsynlegt að afla nýrra gagna um jarðlagaskipan og höggun í völdum borholum með holusjá ÍSOR „Optical Borehole Imager“ (mynd 3) á þeim svæðum þar sem takmarkaðar upplýsingar liggja fyrir. Þannig fæst betri sýn á gerð og þykkt jarðlaga á svæðinu auk upplýsinga um stefnur og halla á sprungum. Áður en farið verður í gagnaöflun með holusjá þarf að fara yfir öll aðgengileg gögn úr holunum til að meta hvar þörfin er mest á mælingum og taka tillit til aðgengis að holu og möguleikum á mælingum í holunni.
Með holusjánni er unnt að mynda holuveggi í góðri upplausn og fá skýra mynd af höggun og uppbyggingu jarðlaga í holunum. Þetta er mikil bylting í borholumælingum á Íslandi eykur nákvæmni og vissu í kortlagningu á sprungum, berggöngum, jarðlögum í borholum. Við úrvinnslu holusjárgagna er hægt að mæla halla, vídd og stefnu þeirra sprungna sem holan sker.
Þrívíða jarðlagalíkanið mun nýtast Vegagerðinni í framtíðinni sem mikilvægt tæki til að taka ákvarðanir við skipulagningu, staðarval og framkvæmd á ýmsum mannvirkjum s.s. jarðgöngum, vegum, stokkum o.fl.