Almenn verkefni 2024

Heiti verkefnis : 

Forkönnun á gögnum og upplýsingum um bílbruna á Íslandi

Verkefnastjóri : 

 

Stutt lýsing á verkefninu:

 

Bílbruni er alvarlegt atvik sem getur auðveldlega leitt til til stórs slyss og mannskaða. Kviknað getur í bifreiðum á ferð og getur það reynst ökumönnum og farþegum erfitt að komast út tímanlega. Einnig getur kviknað í bifreið sem er kyrrstæð hvort sem hún er í gangi eða hefur verið lagt í bifreiðastæði. Þá getur eldur borist í nærliggjandi bifreiðir, fasteignir og gróður. Í jarðgöngum fyrir umferð eru bílbrunar sérstaklega hættulegir og myndast geta lífshættulegar aðstæður þar sem fjöldi bifreiða og fólks getur orðið innlyksa í umferðarteppu í jarðgöngum með logandi bifreið. Atvik þegar kviknar í bifreið eru í fæstum tilfellum skráð í lögregluskýrslur um umferðarslys. Nú er því ekki greiður aðgangur að gögnum um bílbruna og torvelt að rannsaka þessi atvik og leita leiða til úrbóta fyrir umferðaröryggi. Í þessari forkönnun verður kannað hvaða gögn eru til og eru fáanleg á þeim stofnunum sem helst tengjast slíkum atvikum. Þá verður unnin grundvallar tölfræði um þau gögn sem fást. Í framhaldinu verða settar fram tillögur til úrbóta varðandi gerð, varðveislu og aðgengi að gögnum um þessi atvik og skýrt frá þeirri tölfræði sem hægt var að taka saman byggt á þeim gögnum sem aflað verður í verkefninu.

Tilgangur og markmið:

 

Tilgangur þessarar rannsóknar er að komast að því hvaða gögn eru til um bílbruna og fáanleg til rannsókna, sótt verður um að fá þau gögn afhent til rannsóknar. Markmið með þessu er að greina hvaða gögn um bílbruna eru fáanleg og byggt á því koma með tillögur til úrbóta um gagnasöfnun, varðveislu og aðgengi að gögnum um bílbruna.

Þá verða þau gögn sem fást könnuð og unnin grundvallar tölfræði um þau. Tilgangur þess er að komast að því hvort þar eru nú þegar gagnlegar upplýsingar til að komast að orsökum og tegundum bílbruna atvika með það að markmiði að veita yfirsýn um þessi atvik. Unnar verða tillögur til úrbóta ef gloppur eru í gögnum og einnig ef núverandi gögn bera með sér vísbendingar orsakir, sem hægt er að greina. Markmið með því er að leggja fram tillögur sem geta aukið umferðaröryggi.