Almenn verkefni 2024

Heiti verkefnis : 

Framþróun á notkun vefmyndavéla Vegagerðarinnar

Verkefnastjóri : 

 

Stutt lýsing á verkefninu:

 

Rannsókn þessi miðar að því að stuðla að framþróun við söfnun umferðargagna og umferðarvöktun hjá Vegagerðinni en hingað til hafa myndavélar á vegum verið settar upp fyrst og fremst í þeim tilgangi að vakta færð og veður.

Vegagerðin hefur verið markvisst að fjölga ljósleiðaratengingum við vöktunarmyndavélar í eigum Vegagerðarinnar sem býður m.a. upp á þann möguleika að senda beint myndstreymi í þjónustumiðstöð Vegagerðarinnar. Þörf er að greina betur tækifæri sem þessar umbætur hafa í för með sér þ.m.t. hvaða umferðargögnum getur verið skilað og hvernig sjálfvirkar atvikagreiningar s.s. vegna slysa, geta verið innleiddar.

Rannsóknaraðferð miðar að því að skoða lausnir á markaði og standa að framhaldi að prófun með þekktum hugbúnaði þar sem staðið verður að greiningu og atvikagreiningu á beinu myndstreymi úr vél Vegagerðarinnar. 

Vonir standa yfir að niðurstöður geti varpað betri sýn á tækifæri sem felast í myndgreiningu á myndavélum Vegagerðarinnar og aðstoðað Vegagerðina að setja sér stefnu/aðgerðaráætlun í þessum málaflokki s.s. hvar myndavélar eiga að vera staðsettar, hvort þörf sé að fjölga þeim og svara hvaða tilgangi þær þjóna hverju sinni.

 

 

Tilgangur og markmið:

 

Tilgangur og markmið þessa verkefnis er að skilgreina tækifæri til þess að snjallvæða samgöngur og efla umferðarvöktun Vegagerðarinnar með myndagreiningartækni. Við snjallvæðingu samgangna er mikilvægt að geta aflað betri gagna um umferðina innan höfuðborgarsvæðisins sem geta verið nýtt með ýmsum hætti. Reynt verður að svara eftirfarandi rannsóknarspurningum til þess að geta uppfyllt markmið verkefnisins: 

  • Hvaða lausnir eru í boði til að nýta sér myndstreymi úr myndavélum Vegagerðarinnar?
  • Hvernig nýtist sjálfvirk atvikagreining vakstöð Vegagerðarinnar? Geta þær t.d. stytt viðbragðstíma við slysum?
  • Er þörf að fjölga myndavélum Vegagerðarinnar?
  • Hversu umfangsmikið verk er að tengja hugbúnað/vélbúnað við myndavélar Vegagerðarinnar?
  • Hvernig reynist að myndgreina beint myndstreymi sem berst í vaktstöð Vegagerðarinnar?