Almenn verkefni 2024

Heiti verkefnis : 

Götukappakstursbraut innan höfuðborgarsvæðisins Raunhæfur möguleiki

Verkefnastjóri : 

 

Stutt lýsing á verkefninu:

 

Í verkefninu verður skoðað hvort það sé raunhæfur möguleiki að útbúa tímabundna götukappakstursbraut fyrir stór íþróttaviðburði (eins og Formúlu 1 eða Formúlu E) innan núverandi samgöngukerfis á höfuðborgarsvæðinu. Meðal annars verða skoðuð áhrif tímabundinna götukappakstursbrauta á nærliggjandi samfélag. Auk þess verður reynt að finna svæði innan höfuðborgarsvæðisins sem standast leiðbeiningar FIA, Alþjóðlega aksturssambandsins, varðandi götukappakstursbrautir fyrir stór íþróttaviðburði. 

Tilgangur og markmið:

 

Verkefnið á að sýna hvort, og þá hvernig hægt er að nota innviði í öðrum tilgangi en þeir voru upphaflega ætlaðir. Skoðuð verða jákvæð og neikvæð áhrif sem heimsklassa akstursíþróttaviðburðir geta haft á nærliggjandi samfélag ásamt þeim tækifærum sem mögulega opnast í kjölfar þess konar viðburða. Þetta er gert í von um að opna á umræðu á þau tækifæri sem vega- og gatnakerfi innan höfuðborgarsvæðisins geta boðið upp á. Einnig að stuðla að mikilvægi viðhalds og vekja athygli á þeim tækifærum sem hægt er að hafa í huga við hönnun samgöngumannvirkja. Verkefnið á auk þess að sýna fram á þá fjölbreytni sem skipulagsfræðin hefur og auka þekkingu á tengslum skipulagsfræðinnar við tímabundna stóríþróttaviðburði innan borgarmarka.

Búið er að móta eftirfarandi rannsóknarspurningu:

Að hvaða marki er raunhæft að setja upp götukappakstursbraut fyrir alþjóðlegar kappakstursíþróttir innan höfuðborgarsvæðisins, hvaða tækifæri opnast við  það og hver eru áhrif þess á nærliggjandi samfélag?

Rannsóknarspurningunni verður svarað með eftirfarandi undirrannsóknarspurningum:

1. Hvaða tækifæri fylgja kappakstri innan borgarmarka og hver hafa verið áhrif götukappakstursbrautar á samfélag í borgum þar sem þeir hafa farið fram?

2. Hvaða viðmiða þarf að taka tillit til við að setja upp götukappakstursbraut - og að hvaða leyti og hvar er hægt að uppfylla þau innan núverandi gatnakerfis höfuðborgarsvæðisins?

3. Hver eru áhrif götukappaksturs á valið tilvik innan höfuðborgarsvæðisins með tilliti til alþjóðlegra viðmiða?