Almenn verkefni 2024

Heiti verkefnis : 

Samanburður á hávaðavísum og reikniaðferðum í reglugerðum nr. 7242008 og nr. 10002005

Verkefnastjóri : 

 

Stutt lýsing á verkefninu:

 

Í verkefninu verður gerður samanburður á ólíkum hávaðavísum og aðferðafræði við mat á umferðarhávaða samkvæmt reglugerð um hávaða nr. 724/2008 og reglugerð um kortlagningu hávaða og aðgerðaáætlanir 1000/2005 ásamt síðari breytingum. Með samanburðinum verður einnig lagt mat á kosti þess og galla við að samræma hávaðavísa og aðferðafræði.

Settur verður upp samanburður við önnur Norðurlönd, varðandi notkun á hávaðavísum og aðferðafræði við mat á umferðarhávaða, þar sem ólík nálgun er á milli Norðurlandanna síðan Evróputilskipunin 2002/49/EB (European Noise Directive - END) var gefin út. Þá verður einnig gerð stutt samantekt á því hvaða þróun hefur orðið annars staðar á Norðurlöndum eftir innleiðingu CNOSSOS-EU (Common NOise ASSesment MethOdS in EU) reikniaðferðarinnar með Evróputilskipun 2015/996.

Tilgangur og markmið:

 

Tilgangur verkefnisins er að skoða stöðu á Íslandi á notkun hávaðavísa og aðferðafræði við útreikninga á umferðarhávaða og bera saman við þá þróun sem orðið hefur annars staðar á Norðurlöndunum og í Evrópu eftir útgáfu Evróputilskipunarinnar END og síðari breytingar á henni. Einnig verður lagt mat á kosti og galla þess að hafa samræmda notkun á hávaðavísum og reikniaðferðum í stað núverandi leiðar sem felst notkun ólíkra aðferða við mat á umferðarhávaða. Þessi rannsókn nýtist því sem mikilvægt innlegg í þróun á mati á umferðarhávaða á Íslandi og þróun íslenskra reglugerða.

Hávaðavísirinn LAeq,24h táknar jafngildishljóðstig yfir sólarhring, á meðan Lden er hávaðavísir fyrir heildarónæði þar sem lögð er meiri vigt á kvöld- og næturumferð. Þetta þýðir að þegar umferðarhávaði er sýndur á hávaðakorti með Lden þá er hljóðstigið u.þ.b. 3 dB hærra en á hávaðakorti með LAeq,24h. Til skýringar þá samsvarar tvöföldun hljóðorku um 3 dB hækkun á hljóðstigi.

CNOSSOS-EU er samevrópskt reiknilíkan sem var innleitt með Evróputilskipun árið 2015 og hefur nú verið tekið í notkun á Íslandi í vinnu samkvæmt reglugerð um kortlagningu hávaða og aðgerðaáætlanir nr. 1000/2005. RTN96 (Road Traffic Noise – Nordic Prediction Method 1996:525) er samnorrænt reiknilíkan frá árinu 1996 sem hefur lengi verið notað við hávaðaútreikninga hér á landi og er enn í mikilli notkun í vinnu samkvæmt reglugerð um hávaða nr. 724/2008. Munurinn á reikniaðferðunum liggur m.a. í inntaksbreytum. Í skýrslu frá Sintef frá árinu 2023 er sýndur munur á reikniaðferðunum á bilinu -5 - +3 dB, háð ýmsum forsendum eins og t.d. ökuhraða.

Markmiðið með verkefninu er að svara spurningunni um hvaða kosti og galla það myndi hafa í för með sér að samræma notkun á hávaðavísum og reikniaðferðum í takt við þróun í innleiðingum á hávaðavísum og reikniaðferðum frá Evrópusambandinu, byggt á samanburði við önnur Norðurlönd.