Almenn verkefni 2024

Heiti verkefnis : 

Flóð íslenskra vatnsfalla uppfærsla flóðagreiningar mældra vatnsfalla

Verkefnastjóri : 

 

Stutt lýsing á verkefninu:

 

Veðurstofa Íslands hefur í mörg undanfarin ár, í nánu samstarfi við Vegagerðina, unnið að verkefnum tengdum flóðagreiningum íslenskra vatnsfalla og þróun vatnafarslíkana. Upplýsingar um endurkomutíma og stærð flóða eru nauðsynlegar hönnunarforsendur fyrir vegaframkvæmdir og brúargerð, en einnig fyrir skipulag og mat á áhættuviðmiðum. Þó að sjónum hafi í auknu mæli verið beint að landsvæðum þar sem takmarkað magn upplýsinga er til staðar og jafnvel þar sem engar beinar mælingar hafa farið fram, þá er jafnframt nauðsynlegt að uppfæra flóðagreiningar fyrir mæld vatnsföll, með reglubundnum hætti. Þar kemur helst til endurmat á stærstu flóðum, en þó aðallega lenging tímaraða og þá sérstaklega þar sem fyrri flóðagreiningar hafa byggt á stuttum röðum.

Þó flóðagreiningar séu vissulega gerðar á grundvelli þarfa fyrir einstök verkefni er nauðsynlegt að endurgera þær með reglubundnum hætti, enda verða þær áreiðanlegri eftir því sem tímaraðirnar lengjast. Það á sérstaklega við ef stór flóð hafa orðið frá síðustu greiningu eða endurmat hefur farið fram á eldri stórflóðum. Sjö ár eru nú liðin frá því að vinna hófst við síðustu greiningu og samantektarskýrslu „Flóð íslenskra vatnsfalla - flóðagreining rennslisraða“, sem gefin var út 2018. Þá voru flóðagreiningar gerðar fyrir samtals 68 vatnsföll. Af þessum 68 vatnsföllum voru 10 vatnsföll með tímaraðir styttri en 20 ár og því munar verulega um þau sjö ár sem nú hafa bæst við.

Tilgangur og markmið:

 

Verkefnið er unnið í þeim tilgangi að uppfæra upplýsingar um árleg hámörk og endurkomutíma stærstu flóða, hönnunarflóða, og taka þannig saman upplýsingar um stærð rennslishámarka með tiltekinn endurkomutíma. Þessar upplýsingar eru nauðsynlegar við hönnun á mannvirkjum sem byggja á straumfræðilegum forsendum. Einkanlega á slíkt við um brýr og stíflur, en það á jafnframt við um rekstur uppistöðulóna og við gerð áhættuviðmiða vegna flóðahættu. Hönnunarforsendur gera jafnan þá kröfu að mannvirki standist flóð með endurkomutíma 50 eða 100 ár. Í einstaka tilfellum er miðað við allt að 200 til 1000 ára endurkomutíma fyrir kerfislega mikilvæga innviði

Meginmarkmið verkefnisins er að endurákvarða stærð og endurkomutíma flóða fyrir þá rennslisgæfu vatnshæðarmæla sem Veðurstofa Íslands er með, og hefur verið með í rekstri, og náð hafa þeirri tímalengd að forsvaranlegt er að birta flóðagreiningu fyrir. Líkt og gert hefur verið í sambærilegum verkefnum áður, er gert ráð fyrir að niðurstöðurnar verið settar fram á einföldu og aðgengilegu formi, eins fyrir öll þau vatnsföll sem tekin verða fyrir. Þar verði gefnar upplýsingar um niðurstöður tíðnigreininga, þar sem endurkomutími 2, 5, 10, 25, 50, 100  og 200 ára flóða verði ákvarðaðir. Jafnframt því verða helstu upplýsingar um viðkomandi vatnsföll og rennslishætti þeirra uppfærðar og settar fram bæði myndrænt og í textaformi. Þessar upplýsingar nýtast jafnframt sem inntaksgögn við kortlagningu á útlínum flóða með lengri endurkomutíma.