Almenn verkefni 2024

Heiti verkefnis : 

Vöktun á fuglalíf við hálendisvegi

Verkefnastjóri : 

 

Stutt lýsing á verkefninu:

 

Fuglum ásamt flestum dýrahópum er að fækka á jörðinni t.d. vegna taps á búsvæðum og loftslagsbreytinga [1, 2.] Fuglar á norðlægum slóðum og fjallafuglar virðast vera sérlega viðkvæmir 3. Á Suðurlandsláglendi hefur farið fram vöktun á fuglum meðfram vegum í rúm 10 ár og eru vísbendingar um að fækkað hafi í stofnum flestra mófuglategunda á tímabilinu [4]. Lítið er vitað hvernig stofnum reiðir af á hálendinu en vísbendingar eru um að snjótittlingi fari fækkandi [5]. Sumarið 2021 og 2023 voru fuglar taldir meðfram Kjalvegi og afréttarvegi um Hrunamannaafrétt og á Sprengisandsleið 2023. Þessar talningar eru grunnur að vöktun en verkefnið sem hér sótt um er um að þétta net athugunna meðfram vegum á Suðurlandshálendinu og á gróðureyjum, ásamt því að telja aftur við Kjalveg og afréttarveg til samanburðar. Nýjar athuganir verða við vegslóða nærri Kjalvegi og Kvíslaveitum. Einnig verða fuglar taldir á vegum austan Sprengisands. Að auki verður talið á völdum gróðureyjum fjær vegunum.

Tilgangur og markmið:

 

Markmiðið er að kanna fuglalíf með fram hálendisvegum og að athugunin verði liður í vöktun á fuglum á miðhálendi Íslands. Fuglar verða taldir á föstum punktum á u.þ.b. 3-5 km fresti meðfram hálendisvegum sumarið 2024. Einnig verður talið á völdum stöðum á gróðureyjum í grennd við vegina þar sem fuglalíf gæti verið sérlega ríkulegt og viðkvæmt fyrir umferð eða raski.

Athugun fór fram á Kjalvegi og Afréttarvegi um Hrunamannaafrétt sumrin 2021 og 2023 og Sprengisandsleið 2023 [6].  Vöktunin er því komin af stað en þessari rannsókn er ætlað að þétta betur net upplýsinga um fuglalíf á hálendi landsins og ná betur utan um þann breytileika sem kann að vera. Einnig verða þá komnar niðurstöður þriggja ára fyrir tvo vegi og því hægt að greina betur gögnin t.d. varðandi þéttleika meðfram þessum vegum.

Niðurstöður verða birtar í skýrslu til Vegagerðarinnar fyrir árið 2024 ásamt fyrri talningum.  Áætlað er að vakta á 3-5 ára fresti þessa hálendisvegi eða oftar ef fjármagn fæst í örari vöktun. Niðurstöður verða birtar á heimasíðu setursins. Einnig verður birt grein þegar athuganir hafa náð a.m.k. fimm sumrum eða yfir 10 ára tímabil.

Vegagerðin getur einnig nýtt niðurstöður úr þessu verkefni fyrir matskyldu, ef lagfæringar eða uppbyggingar á hálendisvegum eru áætlaðar.